149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

26. mál
[15:11]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Virðulegur forseti. Mig langar til að taka undir með þeim sem hafa tekið til máls hér og þakka hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur fyrir að leggja málið fram. Það er ánægjulegt að sjá í hvaða farveg þetta er komið. Það vill nú þannig til að akkúrat í dag var ég að fá svar frá dómsmálaráðherra við fyrirspurn varðandi heimilisofbeldismál þannig að það rímar inn í þessa umræðu.

Hv. þingmaður talar um brot á nálgunarbanni og lágar sektir, og ég fagna því að verið sé að taka betur á því. Mér skilst, af samræðum við fólk sem starfar innan löggæslunnar, að það sé jafnvel ekki túlkað sem brot á nálgunarbanni ef verið er að senda SMS-skilaboð, það verði að túlka innihald. Í raun er það brot á nálgunarbanni þegar þú ert að fá skilaboð frá aðilanum sem nálgunarbannið er sett á því að þú veist ekki hvert innihaldið er fyrr en þú ert farinn að lesa það. Þannig að þetta er áreiti sem taka þarf harðar á.

Ég vil einnig taka undir þörfina fyrir að skoða betur umsáturseinelti og hvar þau mál eru í kerfinu okkar, að það sé mjög þarft. Svo að ég vísi í svar dómsmálaráðherra, sem barst í dag, komu á síðasta ári 868 heimilisofbeldismál inn á borð lögreglu. Auðvitað leysist fjöldi þessara mála án þess að hafa komið til dómstóla eða annað slíkt. Hv. þingmaður kom líka inn á það að fleiri sakborningar leita sér aðstoðar. Það er því verið að leysa málin án mikilla inngripa en þar sem þeirra er þörf er ekki spurning að við þurfum að gera betur og vernda þá einstaklinga sem lenda í þessum málum og hjálpa þeim sem eru gerendur líka. Þetta vinnur allt að betra lífi þessara einstaklinga.