149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir hrós varðandi stjórnun nefndarinnar. Mig langaði aðeins að velta því upp að staðan er auðvitað ekki góð í Tyrklandi, hún hefur versnað mikið upp á síðkastið en þegar litið er til baka til 1992 þá hefur margt gerst, þegar horft er yfir langan tíma er þróunin auðvitað stundum upp og niður. En með þessu er í fyrsta skipti mannréttindaákvæði í samningnum sem var ekki í fyrri samningi og það leiðir kannski og vonandi til þess að það verði hægt að ræða mannréttindi á þessum vettvangi í auknum mæli. Við það má binda ákveðnar vonir um nýrri tíma. Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað komið áhyggjum sínum á framfæri og gagnrýnt framferði tyrkneskra stjórnvalda og þetta er mikilvæg viðbót við þá gagnrýni sem uppi hefur verið á tyrknesk stjórnvöld vegna ýmissa þátta, hvort sem það er fjölmiðlafrelsi, sjálfstæði dómstóla eða aðför að mannréttindafrömuðum. Hér bætist við ákveðið mannréttindaákvæði sem ekki er í fyrri samningi og vonandi stuðlar það að því að hægt sé að ræða mannréttindamál í auknum mæli á þessum vettvangi.

Að auki þá var, eins og hv. þingmaður kom inn á, mikil og góð umræða um þessi mál í nefndinni og ég vonast til að það verði áfram. Á morgun kemur hæstv. ráðherra á fund nefndarinnar til að ræða komandi fundalotu Íslands í mannréttindaráðinu og það verði framhald á þessu samtali hvar við gagnrýnum og finnum að ákveðnum mannréttindamálum í heiminum. Með þessum samningi verður mögulega hægt að ræða mannréttindi á nýjum vettvangi þar sem það er nýtt ákvæði í samningnum.