149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[15:35]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla líka að minna hv. þingmann og formann nefndarinnar á að það voru óskir um að ráðherra myndi gefa sér tíma til að fara líka yfir samningsmarkmiðin vegna Brexit. Ég hef m.a. óskað eftir því af því að það hefur ekki alveg verið skýrt hver samningsmarkmiðin varðandi Brexit eru. Við erum með ákveðnar upplýsingar í nefndinni sem við þurfum að fara betur yfir með ráðherra. Ég vil líka benda hv. formanni nefndarinnar á að það var einnig, af minni hálfu, óskað eftir því að ráðherra færi yfir fundinn með Pompeo sem hann átti um daginn. Það skiptir máli, sér í lagi þegar talað er um viðskiptalega hagsmuni en líka öryggishagsmuni eins og kom fram í máli Pompeos, þá þýðir það eitthvað meira en bara þessi orð. Þetta þýðir auðvitað hugsanleg aukin hernaðarumsvif, m.a. vegna aukinna umsvifa Kínverja og Rússa hér og þetta eru hlutir sem við þurfum að fá að fara yfir með ráðherra, hvað er í pípunum. Það á ekki að koma neinum á óvart.

Síðan segi ég bara guð láti gott á vita ef við ætlum að taka þessi mál fastari tökum með því að færa betur inn mannréttindamálin og nálgast þau formlegar í þessum samningi. Við sem höfum verið að fylgjast með þróun alþjóðamála, eins og ég og hv. þingmaður og fleiri, sjáum að það eru hefðbundin vinnubrögð í gangi varðandi fríverslunarsamninga, varðandi samskipti á milli þjóða. Það sem ég kalla eftir er að við spyrjum: Er ekki kominn tími fyrir okkur að staldra við og nálgast mannréttindamálin með öðrum hætti? Getum við notað viðskiptamálin til að setja enn meiri þrýsting á ríki heims eða sem hvata fyrir ríki til að sinna mannréttindamálum betur og vera eðlilegur þátttakandi í alþjóðasamfélaginu sem frjáls lýðræðisþjóð? Tyrkland getur þetta alveg, hefur alla burði til þess en þróun síðustu ára er því miður dapurleg.