149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[15:51]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég ber virðingu fyrir skoðunum flokkssystur minnar, Álfheiðar Eymarsdóttur, hvað þetta varðar. Bara svona til að árétta það þá hafa Píratar ekki mótað sér stefnu í þessum málaflokki en við höfum verið að ræða þetta. Eigum við að gera fríverslunarsamninga við ríki sem klárlega brjóta mannréttindi, eins og hv. þingmaður fór mjög ítarlega yfir? Eigum við að gera fríverslunarsamninga? Það er eitt að sýna frumkvæði, að fara af stað með að gera fríverslunarsamninga. En eigum við að rifta fríverslunarsamningum sem eru til staðar við slík ríki? Það er annað. Þessi umræða á sér enn stað meðal Pírata og við tökum vel upplýstar ákvarðanir.

Þegar ég horfi til fríverslunarsamninga eða einhvers konar efnahagsþvingana eða þess að slíta viðskiptasambandi eða beita efnahagsþvingunum til að koma í veg fyrir að önnur ríki geti stundað viðskipti við eitthvert ríki vegna mögulegra brota sem alþjóðasamfélagið vill taka á þá er slíkt yfirleitt gert gagnvart veikari ríkjum. Það er tekið á veiku ríkjunum en ekki þeim stóru, alveg óháð brotunum.

Þá skiptir líka máli hvaða árangri það skilar. Hvaða áhrif hefur það, annars vegar á stjórnvöld, til þess að þau hegði sér betur, og hins vegar á fólkið í landinu? Það sem við sáum í tíu ára efnahagsstríði gegn Írak á sínum tíma, undir Saddam Hussein, var að það styrkti stjórn hans. Það gerði lífsviðurværi fólksins í landinu gríðarlega slæmt. Þannig að við verðum að horfa til þess.

Ég veit um eitt dæmi um að það hafi dugað að nota einhvers konar efnahagsþvinganir eða viðskipti sem vogarafl í afstöðu stjórnvalda til breytinga á stjórnarfari. Það er Suður-Afríka. Það virkaði þar. Ég veit ekki um fleiri staði. Ég myndi sjálfur ekki taka afstöðu til þess að gera fríverslunarsamning, slíta viðskiptasambandi eða fara í efnahagsþvinganir gagnvart ríki nema ég vissi hver raunveruleg áhrif þess væru. Hefur það þau áhrif að ástand mannréttindamála í landinu verður betra eða verður það jafnvel verra? Fyrr en ég veit það mun ég ekki taka afstöðu til þess.

En eins og ég segi: Þetta er enn þá umræða sem er í gangi hjá Pírötum. Við tökum ákvarðanir í ljósi upplýsinga og gagna. Þess vegna er ekki komin nein formleg stefna enn í þessum málaflokki. En hún mun koma — eins og fleiri stefnur.