149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

fullgilding heildarsamnings um efnahagslega samvinnu milli EFTA-ríkjanna og Ekvador.

500. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings um efnahagslega samvinnu milli EFTA-ríkjanna og Ekvador.

Það er skemmst frá því að segja að nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristin F. Árnason, Katrínu Einarsdóttur og Davíð Loga Sigurðsson frá utanríkisráðuneyti. Með þessari tillögu er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á umræddum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Ekvador sem undirritaður var á Sauðárkróki 25. júní 2018.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að fríverslunarsamningurinn við Ekvador kveði á um gagnkvæma niðurfellingu og lækkun tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar og óunnar landbúnaðarvörur. Þannig muni tollar á hvers kyns sjávarafurðir og iðnaðarvörur, sem fluttar eru út héðan til Ekvador, falla niður frá gildistöku samningsins eða á aðlögunartíma. Það sama á við um helstu landbúnaðarvörur sem framleiddar eru hér á landi til útflutnings.

Þá kemur fram í greinargerðinni að útflutningur frá Íslandi til Ekvador hafi verið lítill og numið tæpum 30 millj. kr. árið 2018. Er þar nær einungis um að ræða útflutning á iðnaðarvörum. Innflutningur frá Ekvador hefur einnig verið lítill en hefur þó aukist undanfarin ár og nam um 600 millj. kr. árið 2017. Er þar að mestu um að ræða innflutning á ávöxtum og öðrum matvælum.

Ég nefni það sérstaklega til skýringar að það eru fyrst og fremst bananar sem eru uppistaðan í þessu.

Með gagnkvæmri niðurfellingu og lækkun tolla skapar samningurinn forsendur fyrir auknum viðskiptum milli landanna. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt. Undir nefndarálitið skrifa 6. febrúar 2019: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður, Ari Trausti Guðmundsson, flutningsmaður sem hér stendur, Ásgerður K. Gylfadóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Logi Einarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Smári McCarthy og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.

Að þessu sögðu langar mig að nota tækifærið og segja nokkur orð um Ekvador og ástæðan er ekki flókin. Það er land sem ég hef mjög sterkar taugar til. Þetta er land sem er u.þ.b. tvisvar og hálfum sinnum Ísland. Frekar lítið land. Þar búa um 15 milljónir manna og það er óvenjulegt í Suður-Ameríku, að minnsta kosti í sumum löndunum, að þar er meiri hluti frumbyggjar.

Landið liggur á miðbaug, það eru engar árstíðir. Það er ekkert vandamál með klukkuna eins og hjá okkur, það eru 12 tímar birtu og 12 tímar af myrkri. Það er tiltölulega mikill pólitískur stöðugleiki, eða hefur verið undanfarin alla vega 20 ár eða rúmlega það, í landinu. Mannréttindamál eru ekki í fullkomnu lagi. Spilling er til staðar. En það ástand er miklum mun skárra en í mörgum öðrum Suður-Ameríkuríkjum.

Landið er afar ríkt af auðlindum. Þar má nefna málma og ýmis jarðefni en þó sérstaklega olíu, sem er ein aðalútflutningsvara landsins. Það er ríkt af vatnsafli, mjög frjósamt land, gott til landbúnaðar og þar er einnig jarðhiti. Þar hafa mörg ríki vélað um auðlindir og nú sérstaklega Kína sem hefur komið þar inn af töluverðum þunga eins og víða annars staðar.

Það sem er sérstakt svo og kannski okkur skylt, fyrir utan jarðhitann, er að mörg eldfjöll eru í Ekvador, og eldgos þar með. Það eru jafnvel einhver eldgos í gangi á hverju ári. Þar eru öflugir jarðskjálftar og sérkennið er byggt á því að þarna eru plötur, jarðskautsplöturnar stóru, að rekast saman en ekki að færast í sundur eins og hér á landi. Það einkennir mjög alla þá jarðvirkni sem um ræðir.

Ég hef áður en ég settist á Alþingi reynt að koma á einhverri þróunarsamvinnu milli Ekvador og Íslands. Ég ætla ekki fjölyrða neitt um það en ég held að í tilefni af þessum fríverslunarsamningi sé komið lag að einhverju leyti til aukinna samskipta, verslunar-, menningarsamstarfs og þróunarsamvinnu. Þá er hægt að dusta rykið af því sem áður hefur verið rætt um, þ.e. orkumálum, jarðhitavinnslu t.d., jafnvel vatnsvirkjunum, þó að við séum nú engir sérstakir sérfræðingar í þeim.

Það er samvinna á vettvangi náttúruvár eða jarðvár. Þá á ég við jarðskjálfta og eldgos. Og þar eru líka tækifæri til þess að nýta alla fjóra skólana sem hér eru á Íslandi sem tengjast Sameinuðu þjóðunum, það eru Jafnréttisskólinn, Fiskvinnsluskólinn og Landgræðsluskólinn og svo Jarðhitaskólinn.

Oft er sagt að lítil ríki eigi að sníða sér stakk eftir vexti þegar kemur t.d. að þróunarsamvinnu og þarna er ágætistækifæri til þess. En við gætum líka lært af Ekvadorbúum vegna þess að þar eru umhverfismál að mörgu leyti með góðum skikk, einkanlega þegar kemur að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum. Það eru 11 þjóðgarðar í Ekvador og þar á meðal Galapagos, sem er heimsfrægur staður eins og allir vita. Þar hafa Ekvadorbúar reynt að stunda ákveðna aðgangsstýringu út frá þolmörkum. Það á reyndar við um fleiri þeirra svæði. Það eru líka 24 stór friðlýst svæði í landinu. Sennilega gætu Ekvadorbúar frætt okkur eitt og annað um skipulagningu og rekstur svona svæða, þótt ekki sé annað.

Ég læt þessu lokið, herra forseti. Þetta voru dálitlar upplýsingar um þetta land sem margir Íslendingar þekkja ekki en þó nokkuð margir hafa ferðast þangað og það sem verið hefur sérstakt varðandi Ekvador og Ísland er að þar hefur nokkur fjöldi skiptinema verið.