149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2018 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

531. mál
[16:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2018, frá 6. júlí 2018, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2017/1128 frá 14. júní 2017 um flytjanleika efnisveituþjónustu á netinu yfir landamæri á innri markaðnum.

Reglugerð nr. 2017/1128 miðar að því að fjarlægja hindranir á því að neytendur geti notið þjónustu frá efnisveitum sem þeir eru áskrifendur að eða á því að þeir geti fengið aðgang að efni sem þeir hafa áður keypt eða leigt í heimalandi sínu þegar þeir ferðast til annarra ríkja innan EES. Reglunum er því sérstaklega ætlað að tryggja flutning á þjónustu á netinu yfir landamæri. Neytendur geta því haft full afnot af margs konar efni, til að mynda kvikmyndum, íþróttaviðburðum, tónlist, rafbókum og tölvuleikjum sem þeir hafa löglegan aðgang að í heimalandinu. Reglurnar koma þannig veitendum slíkrar þjónustu til góða því að þeir munu geta boðið þjónustu sína yfir landamæri án þess að þurfa að afla leyfis rétthafa á mörgum svæðum. Eins og stendur eru til staðar ákveðnar leyfisveitingaraðferðir rétthafasamtaka og tilteknir notkunarskilmálar þjónustuveitenda sem koma í veg fyrir að neytendur fái aðgang að þessari þjónustu þegar þeir fara utan.

Virðulegi forseti. Ákvörðunin kallar á lagabreytingar hér á landi. Fyrirhugað er að mennta- og menningarmálaráðherra leggi fram lagafrumvarp um flytjanleika efnisveituþjónustu á netinu yfir landamæri á innri markaðnum á yfirstandandi löggjafarþingi. Gert er ráð fyrir að eftirlit með framkvæmdinni verði á hendi Neytendastofu.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.