149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2018 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

532. mál
[16:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2018, sem mælir fyrir um að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/78/ESB verði felld inn í EES-samninginn. Þar sem lagastoð var ekki fyrir hendi fyrir framangreindri gerð var ákvörðun tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu.

Á árinu 2010 var samþykkt innan ESB að koma á fót nýju samevrópsku eftirlitskerfi á fjármálamarkaði. Eftirlitskerfinu er ætlað að vernda hagsmuni almennings og fjármálamarkaðarins með því að stuðla að stöðugleika og heilbrigði fjármálakerfisins á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Komið var á fót þremur stofnunum sem hafa eftirlit með fjármálastarfsemi á innri markaðnum.

Tilskipun 2010/78/ESB, sem nefnd hefur verið Omnibus I, var samþykkt samhliða stofnreglugerðunum og breytti því gildandi efnislöggjöf ESB á ýmsum sviðum svo að hún endurspeglaði hið nýja eftirlitsumhverfi. Tilskipunin er þannig eins konar safnlöggjöf. Með henni eru gerðar breytingar á tilteknum ESB-gerðum á sviði fjármálamarkaðar þannig að kveðið sé á um heimild til eftirlitsstofnana ESB þar sem við á.

Eftir að samkomulag náðist milli ESB- og EFTA-ríkjanna innan EES um aðlögun reglugerðanna um stofnun hinna þriggja eftirlitsstofnana í samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins voru þær gerðir teknar upp í EES-samninginn haustið 2016. Þær reglugerðir voru í kjölfarið innleiddar í íslenskan rétt með lögum nr. 24/2017, um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

Aðlaganir í þeirri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér eru til umfjöllunar um upptöku Omnibus I í EES-samninginn eru í samræmi við aðlaganir í tengslum við upptöku reglugerðarinnar um eftirlitsstofnanirnar þrjár í EES-samninginn.

Virðulegi forseti. Ákvörðunin kallar á lagabreytingar hér á landi þannig að kveðið verði á um hlutverk eftirlitsstofnananna þriggja gagnvart íslenskum aðilum í viðkomandi löggjöf. Stefnt er að því að fjármála- og efnahagsráðherra leggi á komandi hausti fram frumvörp til innleiðingar á þeim hlutum tilskipunarinnar sem falla undir málefnasvið fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þá voru samþykkt hér á Alþingi fyrir síðustu áramót lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem fólu í sér innleiðingu á tilteknum ákvæðum tilskipunar sem varðar varnir gegn peningaþvætti.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.