149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

539. mál
[16:22]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér fullgildingu fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna við Filippseyjar. Málið er eins og allir vita okkur kunnugt. Mælt hefur verið fyrir því nokkrum sinnum og það hefur þegar fengið umfjöllun í utanríkismálanefnd en ekki komist í gegnum þingið.

Ég er mjög hlynnt alþjóðaviðskiptum og sem minnstum kvöðum á slík viðskipti. Ég hef einfaldlega þá trú að slík viðskipti auki samskipti þjóða á milli og séu báðum aðilum hagfelld. Nú er ég ekki að tala um krónur eða aura í því sambandi, enda er alveg ljóst að sá ágæti fríverslunarsamningur sem hér er mælt fyrir er ekki endilega til þess fallinn að auka mjög hag einkaaðila sem kunna að vera í viðskiptum við Filippseyjar. En ég held að slík viðskipti auki samskipti ríkjanna og gefi því fólki sem býr á Filippseyjum aukin tækifæri til að vera í samskiptum við alþjóðasamfélagið og koma á framfæri því sem þar er um að vera.

Virðulegi forseti. Talað var um það í ræðu áðan að standa með mannréttindum og réttindum barna og ég geri það svo sannarlega. Umræðan um þennan fríverslunarsamning hefur staðið í langan tíma. Þegar samningsferlið hófst hafði Duterte ekki tekið við völdum eins og fram hefur komið. Það er töluvert síðan þetta mál kom hér fyrst fram og við höfum ekki enn fullgilt þennan samning. Ég get ekki séð að sú staða hafi minnkað eitthvað, eigum við að segja, hrokann og ofbeldisfulla stjórnarhætti Dutertes. Ég hef áhyggjur af því að það að við mundum segja nei við því að fullgilda samninginn hefði ekki nokkur áhrif á það stjórnarfar sem þar ríkir.

Ég tek aftur á móti undir það að við eigum að nota hvert tækifæri sem gefst til að tala fyrir mannréttindum og fordæma mannréttindabrot. Það hefur hæstv. utanríkisráðherra gert. Ég held að við ættum einmitt á vettvangi EFTA að ganga enn lengra í þeim efnum. Það hefur verið rætt í hv. utanríkismálanefnd, þegar við vorum að ræða aðra fríverslunarsamninga — en mælt var fyrir nefndarálitum um þá áðan — hvort eftirlit EFTA og þingmannanefnda tengdra EFTA og EES-samningnum gæti verið markvissara og meira rætt um mikilvægi þess að mannréttindi séu í heiðri höfð í þeim ríkjum sem EFTA-ríkin eru að gera samninga við.

Ég aðhyllist það að opnara samtal og opnari samskipti þjóða á milli séu frekar til þess fallin að standa vörð um mannréttindi íbúa á Filippseyjum frekar en að við hér á þingi segjum: Nei, drögum línu í sandinn og segjum nei við fullgildingu þessa samnings.