149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

539. mál
[16:37]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Forseti. Já, það má sjálfsagt skoða eldri samninga og taka til umræðu hvort þar sé ástand mála nógu gott, eða ekki. Það er bara allt önnur umræða. Hér er um það að ræða að gera nýjan samning við ríki sem er með allt niður um sig í mannréttindamálum. Það eru ótal grá svæði, en þetta er ekki eitt af þeim. Hér er bara kolsvart dæmi um ríki sem treður mannréttindi fótum dag hvern.

Að það sé einhver viðsnúningur á stefnu að ástand mannréttindamála ráði einhverju um það hvar við gerum samninga og hvar ekki — hvernig fær það staðist ef við erum með klausu í þessum samningum um mannréttindamálin? Skiptir sú klausa engu? Það er kannski dálítið erfitt að meta það af því að við erum ekki að fylgjast nógu mikið með þessum málum. EFTA sinnir ekki sérstöku eftirliti með þessum hluta þeirra fríverslunarsamninga sem undir samtökin heyra. Það væri kannski fróðlegt að fá að heyra það hjá ráðherranum hvernig hann sjái fyrir sér að styrkja þessa klausu, þessa áréttingu á stuðningi okkar við lýðræði og mannréttindi í samstarfsríkjunum. Eða hvort þessi klausa eigi bara að fara út ef hún er tóm orð á blaði og hefur ekkert með stefnu stjórnvalda að gera.