149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

539. mál
[16:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þingmaður fara nokkuð frjálslega með mín ummæli. Ég hvet hv. þingmann, af því ég veit að hann getur vel kynnt sér mál og hefur oft gert það og komið með gott innlegg í þingið, að kynna sér stöðu mannréttindamála í þeim löndum sem við erum núna með fríverslunarsamninga við í gegnum EFTA, og jafnvel okkur sjálf. Ég held að hv. þingmaður komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé um grá svæði að ræða hjá mörgum þeim löndum, því miður, engin grá svæði, við erum að tala um kolsvört. Það að setja klásúlu þarna inn, sem er nýmæli og tiltölulega nýtilkomið, er að mínu áliti gott vegna þess að það skiptir máli að taka þessi mál upp alls staðar.

Þær stofnanir sem hafa eftirlit með þessu eru fyrst og fremst stofnanir Sameinuðu þjóðanna, sem er nýtt, virðulegi forseti, að við séum að beita okkur í, og sérstaklega fór ég yfir mannréttindaráðið. Það er nýtt. Það hefur ekki verið gert áður. Við höfum aldrei setið í mannréttindaráðinu áður. Við höfum aldrei beitt okkur með þessa hluti áður. En ef við ætlum hins vegar eins og ég hef farið yfir — ég hef vísað í nefndarálit þegar við vorum að gera fríverslunarsamninga við Kína, og ég geri ráð fyrir, ég hef ekki skoðað nefndarálitið þegar við vorum að gera samningana við Sádi-Arabíu, svo dæmi sé tekið, að þar hafi verið nákvæmlega sama nálgun. Ég er að vísa í hvað nágrannalöndin sem við berum okkur saman við, Evrópuríkin, gera hvað þetta varðar.

Þetta er alveg skýrt. Við beitum okkur í þágu mannréttinda, höfum gert það með öflugri, markvissari og skipulegri hætti en áður, en á sama tíma trúi ég því að betri leið til að ná fram mannréttindum sé að eiga samskipti t.d. á sviði viðskipta. Því að viðskipti er ekki bara að skipta á peningum og vörum og þjónustu. Það eru líka samskipti milli fólks. Það eru mun meiri líkur á því að fólk skilji betur, það læri af hvert öðru og meiri líkur eru á því að við (Forseti hringir.) ýtum undir þau lýðræðisöfl sem eru í viðkomandi löndum ef við eigum slík samskipti við þau en ekki.