149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

breyting á ýmsum lögum til innleiðingar á tilskipun (ESB) 2015/1794.

530. mál
[16:42]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2015/1794, sem felur í sér breytingar á fimm eldri Evróputilskipunum sem þegar hafa verið innleiddar í löggjöf hér á landi.

Frumvarpið var samið í félagsmálaráðuneytinu að höfðu samráði við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands, Félagi skipstjórnarmanna, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Sjómannasambandinu og Samtökum verslunar og þjónustu. Auk þess var frumvarpið sett í opið umsagnarferli í samráðsgátt Stjórnarráðsins.

Markmið fyrrnefndrar tilskipunar og þar með frumvarpsins er að farmenn geti nýtt sér að fullu rétt sinn til sanngjarnra og réttlátra vinnuskilyrða sem og rétt til upplýsingamiðlunar og samráðs.

Í aðfaraorðum tilskipunarinnar er áréttað mikilvægi þess að setja samþættan lagaramma í þeim tilgangi að gera sjávarútveginn samkeppnishæfari. Í því sambandi má nefna að með tilskipuninni voru felldar út nokkrar valkvæðar undanþágur úr eldri tilskipun sem leiddu til þess að hin ýmsu aðildarríki meðhöndluðu starfsmenn í sömu starfsstétt með ólíkum hætti.

Með innleiðingu tilskipunarinnar í íslenskan rétt er nauðsynlegt að gera breytingar á fjórum lagabálkum, þ.e. lögum um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, lögum um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum, lögum um hópuppsagnir og lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Hvað varðar lög um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum þarf að bæta við lögin nýrri málsgrein sem kveður á um að fulltrúar sérstaks samningaráðs og samstarfsráðs sem tilheyra áhöfn hafskips skuli í nánar tilgreindum tilvikum eiga rétt á því að taka þátt í fundum ráðanna. Þá þarf að kveða á um í lögum að þegar mögulegt er skuli slíkir fundir vera skipulagðir þannig að það auðveldi þátttöku fulltrúa og varamanna sem tilheyra áhöfnum hafskipa. Er gert ráð fyrir því að í þeim tilvikum þar sem fulltrúar sem tilheyra áhöfnum hafskips geta ekki setið fund skuli leitast við að nota upplýsinga- og fjarskiptatækni.

Í þessu sambandi vil ég vekja sérstaklega athygli á því að umrædd lög um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum gilda um fyrirtæki sem hafa a.m.k. 1.000 starfsmenn. Munu þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir í þeim lögum því að öllum líkindum ekki koma til framkvæmda hér á landi nema að óverulegu leyti.

Hvað varðar lög um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum sem og lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum þarf að fella út úr lögunum ákvæði sem kveður á um að lögin gildi ekki um áhafnir hafskipa og útvíkka þannig gildissvið þeirra þannig að þau gildi einnig um áhafnir hafskipa.

Við innleiðingu þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir þarf einnig að fella út úr lögum um hópuppsagnir sambærilegt ákvæði og ég gat um hér að framan, auk þess sem bæta þarf við lögin ákvæði sem kveður á um að atvinnurekandi skuli senda skriflega tilkynningu til Vinnumálastofnunar ef fyrirhugaðar uppsagnir varða aðila úr áhöfn hafskips.

Virðulegur forseti. Að lokum vil ég taka fram að hvorki er gert ráð fyrir því að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á stjórnsýslu ríkisins né að það leiði til útgjalda fyrir ríkissjóð.

Þá legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar.