149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[16:49]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (U):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um að ríkið eignist Landssímahúsið við Austurvöll. Tillagan er orðuð þannig:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að beita sér fyrir því að ríkið eignist Landssímahúsið við Austurvöll með því að leita samninga um kaup ríkisins á húsinu en að öðrum kosti að hefja undirbúning þess að ríkið taki eignarnámi þann hluta byggingarlóðar sem tilheyrir Víkurkirkjugarði.“

Gert er ráð fyrir því í tillögunni að ráðherra flytji Alþingi munnlega skýrslu um aðgerðir á yfirstandandi vorþingi. Sá sem hér stendur er einn fjögurra flutningsmanna á ályktuninni.

Ekki þarf að fjölyrða um að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða. Það hefur ekki farið fram hjá neinum hér að miklar framkvæmdir standa yfir hér steinsnar frá þinghúsinu.

Herra forseti. Fréttir frá því í gærkvöldi, um að Minjastofnun hafi fallið frá skyndifriðun austurhluta Víkurkirkjugarðs, breyta engu um nauðsyn þessarar þingsályktunartillögu. Ef einhver heldur að svokallað samkomulag, um að bæta inngangi við áður fyrirhugaða teikningu hótelsins, leysi það mál sem hér er til umfjöllunar er það fjarstæða. Það eina sem þetta samkomulag bætir við það mál sem við fjöllum um hér er að nú horfir svo við að enn frekar megi búast við örtröð gesta lúxushótelsins fram hjá Alþingishúsinu með tilheyrandi töskuglamri.

Ég vil, með leyfi forseta, vitna til orða Helga Þorlákssonar sagnfræðings í dag um þetta mál en hann er einn þeirra sem skrifuðu undir yfirlýsingu þar sem skorað er á menntamálaráðherra að staðfesta skyndifriðun Minjastofnunar og segir hann niðurstöðuna slæma.

„Maður getur ekki séð að saga minja sé í fyrirrúmi í garðinum. Okkur finnst ástæðulaust að skilja austurhlutann eftir. Auðvitað á að friðlýsa allan Víkurkirkjugarð. Austurhlutinn er ekkert ómerkari en vesturhlutinn. Það er greinilega rökleysa og ósamræmi í þessu.“

Málið er því enn á sama stað og áður. Það fjallar í sem stystu máli um að ekki sé byggt yfir forna grafreiti Reykvíkinga. Það er mergurinn málsins, ef það hefur farið fram hjá einhverjum. Þarna stendur til að byggja lúxushótel yfir grafreit 30 kynslóða Reykvíkinga. Nýjustu grafirnar voru teknar á síðustu árum 19. aldar. Málið er því grafalvarlegt á marga vegu.

Af hverju skyldi það vera? Það má eiginlega segja að rökin fyrir því að þessi tillaga nái fram að ganga séu helst tvenns konar, að mínu mati. Í fyrsta lagi snúa ástæðurnar að Alþingi og röskun á friði löggjafarsamkundunnar. Önnur ástæðan, en kannski sú mikilvægasta, er friðhelgi grafreita. Í þriðja lagi er, hvað varðar umferðaröryggi, um áhættusamar framkvæmdir að ræða. Loks er það einfaldlega ásýnd og skuggamyndun á Austurvelli í miðborg höfuðborgarinnar.

Aðrir ræðumenn hafa rætt um friðhelgi Alþingis, samkvæmt 36. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem kemur fram að ekki megi raska friði þess né frelsi. Byggingar sem skaga hátt yfir og eru í seilingarfjarlægð frá gluggum löggjafarsamkundu þjóðarinnar eiga ekki að rísa. Leiða má að því rök að umferð þjónustuaðila og birgja við og að fyrirhuguðu hóteli á Landssímareitnum, svo og hópferðabifreiða, og umgangur ferðamanna verði svo mikill og í svo miklu nágrenni við þinghúsið að það raski friði Alþingis og það eigi hreint ekki að láta óátalið. Ég reikna með að leitun sé að löggjafarþingi þar sem svo þröngt er búið að þinghúsi eins og hér verður ef fyrirhuguð bygging fær að rísa með óbreyttu sniði. Einnig verður ekki séð að aðkoma viðbragðsaðila, svo sem slökkviliðs, sé fyllilega tryggð í þeim þrengslum sem þarna verða.

Herra forseti. Með tilkomu hinnar fyrirhuguðu byggingar í vesturjaðri Austurvallar mun síðdegissól á stórum hluta þessa vinsæla útivistarstaðs Reykvíkinga heyra sögunni til.

Að síðustu ætla ég, herra forseti, að fjalla um það sem mestu máli skiptir að mínu mati, grafarhelgina. Það hefur verið órjúfanlegur hluti af sáttmála kynslóðanna að verja jarðneskar leifar forfeðranna. Þannig var það strax forgangsmál í Vestmannaeyjum eftir Heimaeyjargosið 1973 að hreinsa kirkjugarðinn af vikri. Maður gekk undir manns hönd við að moka óheyrilegu magni af vikri þaðan. Þannig sýndu Vestmannaeyingar og allt þeirra aðstoðarfólk gröfum genginna kynslóða þá virðingu sem þær eiga skilið og í dag ber kirkjugarður Eyjamanna því verki fagurt vitni.

Sá háttur hefur einnig verið viðhafður víðar um landið þar sem grafir forfeðra okkar liggja undir ágangi, ekki af manna völdum heldur náttúrunnar völdum. Við Ásakirkju í Skaftártungu, sem aflögð var 1897, var áfram jarðsett fram yfir aldamótin 1900, eða litlu síðar en síðasta gröfin var tekin í austasta hluta Víkurkirkjugarðs hér við Austurvöll. En ólíkt hafast mennirnir að. Í Ásakirkjugarði í Skaftártungu hefur kirkjugarðurinn einmitt mátt sæta ágangi Eldvatns sem lengi vel braut af bökkum nálægt gröfum gamalla Skaftfellinga. Þar streymir Eldvatn fram hjá og vex á stundum hrikalega í reglulegum Skaftárhlaupum. Á Ásum var bakkavörn hlaðin í árfarveginum fyrir mörgum árum og hefur haldið vel hingað til.

Slíka virðingu, herra forseti, sem ég hef hér nefnt dæmi um, ber okkur skylda til að sýna grafreitum forfeðra okkar. Undir fyrirhuguðum byggingum var austasti hluti hins gamla Víkurkirkjugarðs. Um það vitna fjölmargir beinafundir og heillegar kistur með jarðneskum leifum íbúa Reykjavíkur sem hafa komið upp við jarðrask á þeim stað á undanförnum áratugum, eins og kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögu þessari.

Herra forseti. Okkur ber skylda til að standa vörð um grafarhelgi forfeðra okkar og því vona ég að mál þetta fái greiða leið hér í gegnum þingið.