149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[17:03]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (U):

Herra forseti. Tilkynning mennta- og menningarmálaráðuneytis sem dagsett er 18. febrúar og birt á vefsíðu ráðuneytisins hefur fengið blendin viðbrögð. Þegar að er gáð er ekki að sjá að ráðherra hafi í raun tekið neina sérstaka ákvörðun í þessu máli — þrátt fyrir að slík ákvörðun hafi verið boðuð með nokkrum lúðraþyt — heldur hefur það eitt gerst að Minjastofnun hefur fallist á að falla frá og draga til baka, eins og það heitir, friðlýsingartillögu sína af því að henni var afhent eitthvert blað frá framkvæmdaraðila.

Það er svo að skilja af þessari frétt, eða tilkynningu ráðuneytisins, að það sé þá þessum framkvæmdaraðila að þakka að Víkurgarður, eins og það er orðað, fái þann virðingarsess sem honum beri sem einum merkasta minjastað þjóðarinnar.

Hvaða ákvörðun er það sem í raun og veru er tekin hér? Hún er ósköp einfaldlega að færa inngang hótelsins nær þinghúsinu, að því er virðist án þess að nokkurt samráð hafi verið haft við Alþingi í þessu sambandi.

Haft er eftir prófessor Helga Þorlákssyni sagnfræðingi á vefmiðli Ríkisútvarpsins að niðurstaðan um að falla frá stækkun friðlýsta svæðisins í garðinum sé slæm. Eins og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason rakti í ræðu sinni áðan er prófessor Helgi Þorláksson einn þeirra sem skrifa undir yfirlýsingu þar sem skorað var á menntamálaráðherra að staðfesta skyndifriðun Minjastofnunar.

Með leyfi forseta er enn fremur haft á þessum umrædda vefmiðli eftir prófessor Helga Þorlákssyni:

„Maður getur ekki séð að saga minja sé í fyrirrúmi í garðinum. Okkur fannst ástæðulaust að skilja austurhlutann eftir. Auðvitað á að friðlýsa allan Víkurkirkjugarðinn. Austurhlutinn er ekkert ómerkari eða síður merkilegur en vesturhlutinn. Svo er vesturhlutanum hampað svona mikið. Það er greinileg rökleysa og ósamræmi í þessu.“

Búið var að friðlýsa Fógetagarðinn, sem borgin kallar Víkurgarð. Það var gert 8. janúar síðastliðinn og það var sigur fyrir þá sem hafa haldið á lofti sögulegum sjónarmiðum í tengslum við þennan garð og menningarlegum sjónarmiðum.

Minjastofnun hafði amast við inngangi hótels frá Fógetagarði út frá því sjónarmiði að Fógetagarðurinn ætti ekki að vera forgarður hótels heldur ættu saga og minjar að vera í fyrirrúmi. Núna fær hótelið ekki aðeins einn inngang á vesturhlið heldur tvo og erfitt að sjá að saga og minjar geti verið í fyrirrúmi í garðinum. Út frá þeirri niðurstöðu er fallið frá friðlýsingaráformum í austurhlutanum, þeim sem boðuð voru með umræddri skyndifriðun 8. janúar síðastliðinn.

Það er erfitt að skilja, herra forseti, að sagan í vesturhluta garðsins sé vegsömuð og honum hampað sem helgum reit, eins og það var orðað, en hótelbygging leyfð í austurhlutanum. Til að það væri hægt þurfti að flytja 22 heillegar kistur með heillegum beinagrindum í burtu. Líklega voru þarna bein úr alls 35 manns, að mati fornleifafræðings.

Svona umgengni um kirkjugarð er náttúrlega hreint hneyksli. Skýringar um að tilefnið sé rannsókn á heilsufari eru eftiráskýringar, það blasir við. Þetta var gert til að rýma fyrir umræddu hóteli. Samt er austurhlutinn kirkjugarður áfram, verður ekki afhelgaður formlega, og samkvæmt lögum má aðeins vera þarna almenningsgarður. Hvaða lög eru það? Jú, það eru lög um kirkjugarða. Ég minni á þessi umræddu lög, herra forseti, eins og ég gerði í fyrri ræðu minni, og bendi á að borgin hefur ekki sótt um undanþágu fyrir að reisa þarna mannvirki, eins og henni ber að lögum.

Í þessari tilkynningu menntamálaráðuneytisins er hvergi minnst á lög um kirkjugarða — eins og þau skipti engu máli. Þar fyrir utan, herra forseti, er svo frekjan gagnvart Alþingi. Inngangur bæði frá Kirkjustræti handan við hornið og Thorvaldsensstræti.

Sá sem hér stendur hafði tækifæri til að ræða á dögunum við framkvæmdastjóra framkvæmdaraðila, fyrirtæki sem heitir Lindarvatn, um ýmis sjónarmið sem uppi hafa verið um innganga í hótelið. Við megum samkvæmt samkomulagi um ákvörðun ráðherra — ef ákvörðun er hægt að kalla því að það virðist varla vera nein ákvörðun — búast við mikilli umferð og skrölti frá ferðatöskum sem ferðamenn á leið að eða frá langferðabifreiðamiðstöðinni nýju við Ráðhúsið draga á eftir sér úr þessum hótelinngangi eða að honum, frá Kirkjustræti og úr Thorvaldsensstræti, milli skála Alþingis og til hússins, þ.e. hérna handan við veggi þinghússins.

Er 36. gr. stjórnarskrárinnar eins og hver annar dauður bókstafur sem menn geta haft að engu?

Samkvæmt 36. gr. stjórnarskrárinnar er Alþingi friðheilagt og má enginn raska friði þess né frelsi.

Niðurstaða menntamálaráðuneytis kemur að þessu leyti verr út fyrir Alþingi. Eins og ég gat um áðan er ekki vitað til þess að haft hafi verið samband við yfirvöld hér á bæ um þetta efni. Það er ekki heldur minnst á umrætt stjórnarskrárákvæði í þessari tilkynningu eða frétt mennta- og menningarmálaráðuneytisins eins og það heitir.

Herra forseti. Ég ítreka þakkir til þeirra sem lögðu lið þessum tillöguflutningi sem hefur verndun Víkurgarðs að markmiði með menningarleg sjónarmið og söguleg sjónarmið fyrir augum. Ég ítreka þakkir til Friðriks Ólafssonar fyrir liðsinni hans við undirbúning tillögunnar, en hann lagði m.a. til áskorun heiðursborgara Reykjavíkur og greinargerð með henni. Þar segir að heiðursborgararnir telji með öllu óverjandi að reist verði hótel í Víkurgarði, einum elsta kirkjugarði landsins og helgistað í höfuðborginni. Skorað er á Reykjavíkurborg og byggingaraðila að láta þegar í stað af fyrirhuguðum áformum sem myndu fyrirsjáanlega valda óbætanlegum spjöllum á þessum viðkvæma og söguhelga reit í hjarta höfuðborgarinnar með það fyrir augum, eins og þeir komast að orði, að „þyrma“ Víkurgarði.

Þá þakka ég prófessor Helga Þorlákssyni fyrir margvíslegt liðsinni, einkum varðandi sögu kirkjugarðsins og Landssímareitsins, en hann er meðal þeirra fræðimanna sem mest hafa beitt sér í þessu máli.

Enn fremur þakka ég Hjörleifi Stefánssyni arkitekt fyrir að láta mér í té uppdrátt af Víkurgarði þar sem leitast er við að afmarka austurmörk Víkurgarðs eftir því sem sögulegar heimildir frekast hrökkva til. Þau gögn sem ég hef hér getið um úr hendi Friðriks Ólafssonar og Hjörleifs Stefánssonar fylgja tillögunni og eru hverjum manni aðgengileg.

Ég þakka meðflutningsmönnum, og þá ekki síst hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sem hafði mótandi áhrif á orðalag þingsályktunartillögunnar.

Þessi tillaga, herra forseti, er eins og neyðarhemill í þessu máli. Henni er ætlað að koma í veg fyrir ákvarðanir borgaryfirvalda sem ganga fram eins og þau séu laus við menningarlegan metnað og sögulega vitund. Ég treysti því að hv. þingnefnd vinni hratt og vel í málinu. Borgarbúar sýndu hug sinn til Víkurgarðs með því að troðfylla salinn í Iðnó á glæsilegum fundi á laugardaginn var og fylkja síðan liði í garðinn.