149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[17:15]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það vill þannig til að ég hef kynnt mér fjárhagsleg sjónarmið í þessu máli. Ég gat þess í ræðu minni að ég hefði haft tækifæri til að ræða við forsvarsmann byggingaraðila. Hann greindi mér frá verðmati sem hefði verið gert á því eignasafni sem liggur þarna undir eða tengist þessu, sem er mun meira en umrædd bygging ef ég skildi viðmælanda minn rétt.

Ég hef líka sem nefndarmaður í fjárlaganefnd — sem ég var — haft tækifæri til að kynna mér áform um byggingu nýs skrifstofuhúsnæðis fyrir Alþingi og kostnað í sambandi við það. Ef maður tekur þetta saman, ef svo færi að niðurstaðan yrði að ríkið eignaðist Landssímahúsið, væri að verulegu leyti hægt að koma til móts við þau sjónarmið sem liggja að baki áformum um að byggja nýtt skrifstofuhúsnæði og falla ósköp einfaldlega frá þeim áformum.

Reyndar er það svo að ég leyfi mér, eftir að hafa hlýtt á umræðu um það mál á vettvangi hv. fjárlaganefndar, að álíta að sú framkvæmd kunni að vera vanfjármögnuð.

Þetta vildi ég segja um hinn fjárhagslega þátt þessa máls.