149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[17:19]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (U) (andsvar):

Herra forseti. Þegar spurt er um heildarsýn vil ég ósköp einfaldlega leyfa mér að beina því til hv. þingmanns að hún láti svo lítið að líta út um gluggann og sjá með eigin augum þær framkvæmdir sem eru algerlega ofan í Alþingi.

Ég tek eftir því að hv. þingmaður virðist ekkert gefa fyrir þau sjónarmið sem hér hafa verið rakin, að hér séu lög um kirkjugarða og fara eigi eftir þeim. Nei, nei. Hv. þingmaður virðist ekkert gefa fyrir það að hér sé stjórnarskrárákvæði um friðhelgi Alþingis, ekki er minnst á það. Síðan ber hv. þingmaður hér á borð einhverjar tölur um tugi milljarða króna. Hv. þingmaður hefur bara enga grein gert fyrir því hvaðan þær tölur eru fengnar. Meðan það er ekki gert þá er það náttúrlega eins og hvert annað fleipur.

Ég ætla líka að leyfa mér að segja að ég hefði frekar átt von á því — eða a.m.k. frekar búist við því — að til andsvara vegna þessa máls yrðu fulltrúar þeirra flokka sem mynda meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur og sem bera ábyrgð á því menningarlega og sögulega slysi sem þessari tillögu er ætlað að afstýra.

En það er þriðji æðsti maður Sjálfstæðisflokksins sem gengur fram með þessum hætti, eins og hv. alþingismaður gerir hér ítrekað. Það er ótrúlegt að horfa upp á Sjálfstæðisflokkinn í þessu máli eins og fleiri, genginn í björg. Einhvern tímann hefðu Sjálfstæðismenn tekið öðruvísi á málum. Reyndar gerðu þeir það 1965 og 1966 undir forystu Bjarna Benediktssonar sem þá var forsætisráðherra. Þá var á vettvangi ríkisstjórnar (Forseti hringir.) leitast við að afstýra áformum svipuðum þeim og hér er leitast við að afstýra.