149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[17:28]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni framlag hans til þessarar umræðu. Já, það er ekki laust við að það gæti hvarflað að manni að það gæti verið athyglisvert að vita um baksvið þessarar atburðarásar sem við höfum orðið vitni að í tengslum við þetta mál eins og það snýr að Minjastofnun, ráðuneytinu og framkvæmdaraðilanum.

Það má hugsa til baka, eins og ég leyfði mér að gera áðan, og rifja það upp að ríkisstjórnin sem þá var, viðreisnarstjórnin sem kölluð var — og á ekkert skylt við þann ágæta stjórnmálaflokk sem núna gengur fram undir því heiti — og var framan af undir forystu Ólafs Thors og svo lengst af undir forystu Bjarna Benediktssonar meðan hans naut við, beitti sér undir hans forystu í málinu. Það er rifjað upp í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, það var einu sinni þannig. Ég er að tala um stjórnmálaflokk sem ég hef mjög góðar taugar til og hef haft um áratugaskeið, líka af ákveðnum sögulegum og persónulegum ástæðum. Það er svolítið raunalegt að bera þetta saman, á sjöunda áratugnum voru þarna Bjarni Benediktsson og þeir sem gengu fram í þessu máli voru Sigurbjörn Einarsson biskup og Kristján Eldjárn þjóðminjavörður, síðar forseti Íslands. En við sjáum hvernig gengið er fram núna. Reyndar er það þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hefur mörgu öndvegisfólki á að skipa og líka í sínum þingflokki. En mér þykir það svolítið sárt (Forseti hringir.) að horfa upp á Sjálfstæðisflokkinn genginn í þau björg að þeir sem vilja virða sögulegar menjar (Forseti hringir.) og þau kirkjulegu gildi sem þarna liggja undir, vegna þess að hér er um að ræða kirkjugarð (Forseti hringir.) með 1000 ára sögu og 30 kynslóðir (Forseti hringir.) — þeir eiga ekkert skjól, eftir því sem best verður séð, í Sjálfstæðisflokknum.

(Forseti (JÞÓ): Forseti biður þingmenn um að halda ræðutíma.)