149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[17:45]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka flutningsmanni fyrir að flytja þetta mál og þeim sem að því stóðu. Þetta hefur verið langt ferli, með þessa byggingarlóð þarna hinum megin. Einhvern veginn verður þarna röð atvika en það vantar að hnappa þessu saman og taka síðan ákvörðun út frá því hvernig málið er statt. Þetta ýtist einhvern veginn áfram og þar af leiðandi eru ekki teknar, að manni finnst, ákvarðanir sem mælast vel fyrir.

Mér þykir virðing kirkjugarðsins bíða hnekki í þessu máli — eins og síðasti ræðumaður, hv. þm. Karl Gauti Hjaltason, kom inn á. Mig langar að vitna í greinargerð sem fylgir þessari þingsályktunartillögu en þar segir, undir fyrirsögninni Lög eru ekki virt:

„Ítrekað skal að telja verður að bygging mannvirkis í kirkjugarðinum sé ekki í samræmi við gildandi lög og vísum þá í lög nr. 36/1993 og jafnframt eldri lög um kirkjugarða en eftir þeim var farið 1965. Framkvæmdin samræmist ekki 33. gr. í gildandi lögum þar sem segir að í niðurlögðum kirkjugarði megi ekki reisa nein mannvirki nema ráðherra veiti undanþágu. Slík undanþága skal þó vera háð samþykki Kirkjugarðaráðs. Borgaryfirvöld hafa aldrei farið fram á neitt leyfi eða undanþágu. Kirkjugarðaráð hefur af þessum sökum krafist skýringa á þessu hátterni þeirra.“

Mig langar til að spyrja þingmanninn í framhaldi af því: Hefur hann eða þeir sem flytja þetta mál ekki fengið nein svör hvað þetta varðar?