149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[17:47]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það virðist eins og þessi lög, lög um kirkjugarða, séu algerlega sniðgengin í þessu máli. Við horfum upp á að horft er fram hjá þeim eins og þau séu ekki til, hafi aldrei verið sett. Voru þau þó sett hér í þessu virðulega húsi. Ég verð að nota tækifærið, fyrst ég er kominn hingað upp, og furða mig á því á hvaða vegferð þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa verið í þessu máli. Þeir tala mikið um kostnaðinn. Þeim vex hann í augum. Ég vil bara benda á tækifærin. Hver eru tækifærin? Þetta hús gæti nýst undir starfsemi Alþingis. Þar myndum við spara mikinn kostnað við að byggja hús undir þingið eins og nú eru ráðagerðir um.

Sjá menn ekki þetta tækifæri? Ég er mest hissa á því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins þyrpist ekki einmitt á þetta mál. Maður hefði haldið svona fyrir fram að þeir mundu þyrpast á þetta til að vernda grafir forfeðranna, sem svo sannarlega eru þarna undir.