149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[17:52]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Skipulagsmál hafa staðið mér nærri, af hreinum áhuga á þeim og svo er ég alinn upp að hluta til í 101, þekki þennan miðbæ ákaflega vel eins og hann var fyrir löngu síðan. Hann hefur auðvitað breyst og það er mjög eðlilegt.

Þetta tiltekna verkefni snertir umrædda hótelbyggingu og ég hef aldrei nokkurn tíma verið sáttur við hana, en tel hins vegar þetta verkefni svo langt komið að of seint sé að grípa inn í það með þeim hætti og hér er lagt til. Ég ætla ekki að orðlengja það.

Sjálft verkefnið og allt sem að því lýtur eru mistök, skrifast sennilega á borgaryfirvöld og skipulagsyfirvöld og kannski þá sem hafa þarna hugmyndir um hótelbyggingu yfir höfuð. Það sem mér liggur á hjarta er þessi margfalda hótelvæðing Kvosarinnar. Það finnst mér vera meginmálið í þessu.

Það sem ég á við er samþykkt sem var gerð á vegum borgarinnar um að 23% af byggingarmagni — ég þori ekki alveg að fullyrða hvar mörkin eru, nánast einn fjórði — megi vera gistirými, og þá erum við ekki að tala um einkagistingu, við erum að tala um gistiheimili eða hótel. Ef við horfum á nágrennið, bæði hótel sem eru byggð og hótel sem gætu risið og nokkuð líklegt að þau rísi, jafnvel er búið að grafa grunna o.s.frv., þá held ég að í kringum 15 byggingar séu á svæðinu frá Tjörninni út að höfn, og svo upp í hallann hérna rétt beggja vegna, hin eiginlega Kvos.

Rætt er um Herkastalann sem hótel, sennilega, þó ekki víst. Það eru hótel í röð eftir Aðalstrætinu. Handan við þinghúsið er hótel. Það er verið að reisa hótel við Lækjargötu. Rætt er um að hugsanlega gætu hús eins og Landsbankahúsið orðið að hóteli. Það eru tvær hótelbyggingar aðrar og sérstaklega þó ein sem rís við Hörpu. Ef við leggjum þetta saman á þessu örlitla svæði erum við komin með, við skulum segja heiðarlega á milli 10 og 15 hótelbyggingar og sumar mjög stórar. Allt sem þessu fylgir, rútuumferðin og verslanir, sem eru með mjög sérstökum hætti eins og við vitum, við köllum þær lundabúðir, ásamt veitingahúsum, börum og öðru slíku, gerir það að verkum að ferðaþjónustuvæðingin í Kvosinni er komin langt fram úr því sem manni finnst eðlilegt. Það er fullt af dæmum um borgir í öðrum löndum, litlar borgir, þar sem ástandið er eitthvað svipað og við getum alveg horft til þess hvaða áhrif það hefur haft í þeim samfélögum. Ég þarf ekki að rekja það. Menn eru búnir að tala endalaust um hvernig miðborg Reykjavíkur, eða sérstaklega Kvosin, er orðin mörgum framandi. Þá er ég ekki að tala um fólkið, heldur bara starfsemina sem þar fer fram, ég er alls ekki að hnjóða í hina erlendu ferðamenn.

Þetta finnst mér vera aðalmálið í þessu. Auðvitað er endurgerð húsa af hinu góða. Við sjáum það á Alþingisreitnum og jú, það er verið að koma einhverju hlutverki í Landssímahúsið og endurgera það a.m.k. að innan og gamli Kvennaskólinn fylgir líka o.s.frv. Við erum ekkert á móti þessu, svo fjarri því, en það er ekki sama í hvað þessar byggingar eru notaðar.

Hvað Fógetagarðinn snertir og kirkjugarðinn festi ég mig svolítið við þá málamiðlun sem búið er að gera. Við getum alveg sagt sem svo að notkunin á Fógetagarðinum hingað til með styttuna af Skúla og trén og þau fáu minningamörk sem þar eru, ásamt því sem hugsanlega verður þá friðað til viðbótar eða með breytingu á inngangi hótelsins, dugi til minningar um þennan stað sem einu sinni var kirkjugarður í fullri notkun. Ég er ekki það viðkvæmur fyrir því að ég líti svo á að hvergi megi bygging teygja sig inn á kirkjugarð, ég er bara þannig gerður.

Mig langar ekki að orðlengja þetta mjög, en koma aðeins inn á eitt, þ.e. þegar við tölum um borgir til samanburðar. Ég hef gert það sjálfur, en alltaf þegar við horfum til annarra borga og segjum: Ja, það er búið að gera svona eða hinsegin í þessum borgum og viljum við ekki vera lík þessari eða hinni? Þá verðum við að muna hversu lítil miðborg Reykjavíkur er. Sennilega miðað við íbúafjölda er hún einhver minnsta miðborg sem hægt er að komast af með, þetta litla svæði frá höfninni og þar um kring og hér inn undir Tjörnina. Eins og byggingarmagn hefur þróast þar og notkun þeirra bygginga þá finnst manni það vera einstakt orðið, held ég, í sinni röð. Ég efa það að maður finni borgir þar sem þetta hlutfall búða, veitingastaða, sem mér skilst að séu orðnir 370 í Reykjavík plús, og þá er ég náttúrlega ekki að tala um Kvosina eina heldur bara í það heila tekið, plús þessir gististaðir, að maður finni svipað hlutfall annars staðar. Þó hef ég ekki að rannsaka það.

Ofurþungi ferðaþjónustunnar er einfaldlega orðinn of mikill. Við tölum um fjölmenningu og fjölbreytni. Mér finnst því hafa verið hætt hér, hætt þeim sem sögn, þ.e. að við erum búin að hætta þessum gildum of mikið með því að bregðast svona ýmsum viðmiðum hvað snertir skipulag og nýtingu á þeim örlitla miðbæjarkjarna sem við köllum Kvosina.