149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[17:59]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (U):

Herra forseti. Ég vil umfram allt þakka hv. þingmönnum sem hafa lagt orð í belg í þessari umræðu. Í orðum hv. þm. Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara Sjálfstæðisflokksins og þriðja æðsta mann þess flokks, ágætan, heyrðist mér að það hefði náðst nýr hátindur í málflutningnum þegar hv. þingmaður nefndi að það ætti að gera upp Sjálfstæðissalinn og virtist mega skilja það af máli þingmannsins að það væri helgireitur á borð við kirkjugarðinn og var það kannski í huga þingmannsins og kannski fleiri. Þetta var auðvitað markvert framlag, en ég ætla að spara mér að hafa þau orð sem ég teldi best hæfa um málflutning hv. þingmanns að öðru leyti, a.m.k. í sumum efnum.

Öðru máli gegnir um málflutning hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur, sem er einn af varaforsetum Alþingis, og mér þótti mjög mikill fengur að því að heyra sjónarmið þingmannsins í þessum efnum. Þingmaðurinn vakti máls á ýmsum atriðum sem eru eftirtektarverð og líka varðandi framtíðarþróun kirkjugarða og annað. Við þekkjum að það er að verða viðhorfsbreyting í þeim efnum meðal þjóðarinnar eins og sést af því að vaxandi fjöldi kýs líkbrennslu frekar en greftrun í grafreit. Þingmaðurinn vakti máls á möguleikanum á auknum sveigjanleika við ráðstöfun á líkamsleifum. Þetta eru út af fyrir sig sjónarmið sem tengjast okkar samtíma. Ég hefði leyft mér að hvetja þingmanninn til að leggja heldur meiri áherslu en mér þótti mega merkja í máli hans á friðhelgi Alþingis. Sömuleiðis vil ég leyfa mér að segja það að sjónarmiðið um að eitthvað hafi verið fótum troðið lengi og sé ljótt núna réttlætir ekki vanvirðandi meðferð á helgum reit. Við verðum að vera menn til að rísa undir okkar ábyrgð. Menn hafa kosið að setja þar sem þessi kirkjugarður er bílastæði og núna á að rísa þar hótel Parliament, eins og það heitir svo fagurlega, með miklu raski og ónæði fyrir Alþingi sem var fyrirsjáanlegt.

Ég vil sömuleiðis þakka hv. alþingismanni Ara Trausta Guðmundssyni fyrir hugleiðingar hans um skipulagsmálin. Áhugavert að heyra hann tala um Fógetagarðinn og ég tala nú ekki um styttuna sem þar er, sem er gerð af föður þingmannsins og er náttúrlega meistaraverk eins og svo margt annað sem frá hendi þess mikla og góða listamanns kom. Hans sjónarmið og umræður um hótelvæðingu Kvosarinnar eru náttúrlega allrar athygli verðar.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, herra forseti. Ég ítreka það sem ég sagði. Þessi tillaga er eins og neyðarhemill. Hún er til að verja af sögulegum og menningarlegum ástæðum fornhelgan reit í hjarta höfuðborgarinnar. Þessi garður er auðvitað mjög sérstakur að því leytinu til að hann á sér þessa 1000 ára sögu a.m.k. í höfuðborg landsins, í miðborginni, og það er svo margt sem gerir þennan reit algerlega sérstakan sem kallar á að hann njóti þeirrar verndar sem honum ber.

Að öðru leyti, herra forseti, þá vil ég þakka fyrir þessa umræðu og leyfi ég mér að leggja það til að málinu verði vísað til nefndar og síðari umr.