149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[18:07]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni andsvarið. Það er einmitt þannig að vikið er að því í greinargerð með þingsályktunartillögunni að forsætisnefnd Alþingis kærði á sínum tíma til þeirrar nefndar sem um málið fer, hvað hún nú heitir, umhverfis- og skipulagsnefnd einhver, en niðurstaðan varð að sú kæra var á endanum dregin til baka. Reyndar vil ég geta þess líka að ég hafði samband við þrjá fyrrverandi forseta Alþingis við undirbúning tillögunnar, þar á meðal Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, sem flutti um þetta tillögu, tillögu um skipulag Alþingisreitsins, sem núna hefur verið endurflutt af hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Jóni Gunnarssyni, eins og ég nefndi hérna áðan. Þannig að forsætisnefnd og forsetar Alþingis hafa haft mikla aðkomu að málinu í gegnum tíðina. Þar hefur verið mjög mikið viðnám, en það er eins og það viðnám sé eitthvað minna nú um stundir en það hefur stundum áður verið.