149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[18:08]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir. Ég mátti til með að koma hingað upp og rifja þetta upp þegar ég sá þetta, vegna þess að það sló svolítið í brýnu hérna á milli þingmanna um málið. Eins kom fram í ræðu hjá hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni að það væri orðið of seint að stöðva framkvæmdir. Mér þykir það afskaplega lélegt svar, ég læt mér þá skoðun þingmannsins í léttu rúmi liggja vegna þess að í hug mér kom bygging Landspítalans sem hefur heldur betur verið rætt mikið um. Þar var talað um að búið væri að taka of margar ákvarðanir og skipuleggja of mikið. En í raun og veru er það mál þannig að það hefur ýst áfram í tímans rás án þess að nokkur hafi í raun og veru myndað sér sterkar skoðanir um það. Það hefur enginn fengið rönd við reist af því að fólk lét sig ekki málið varða. Svo var bara komið að því að það þurfti að gera eitthvað, og þá var farið af stað þó að miklu betri hugmyndir væru uppi á borðum um að byggja nýjan spítala á nýjum stað. Það er því svolítið skylt að segja: Þetta er bara orðið of seint, við verðum að klára þetta. Og þá hitnar manni svolítið í hamsi. Þetta er svona hálfgerður gunguháttur, finnst mér.

Ég er ekki með neina spurningu til hv. þingmanns að lokum, heldur þakka ég fyrir umræðuna og vona að málið fái góða umræðu og skilning allra í þingheimi til að það fái grænt ljós.