149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[18:10]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (U) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni. Ég er kannski ekki að ljóstra upp neinu leyndarmálum hérna, en ég hafði auðvitað hug á því að fá fulltrúa fleiri stjórnmálaflokka með á þessa þingsályktunartillögu. Ég hafði sérstaklega áhuga fyrir því að fá fulltrúa úr stærsta stjórnarandstöðuflokknum og beitti mér fyrir því með því að tala við áhrifafólk í þeim flokki, sem nú er utan þings, en það tókst ekki. Það var enginn þar í þeim ágæta þingflokki sem treysti sér til að ljá þessu máli stuðning. Það er kannski helst, ef maður má leyfa sér að geta sér til um ástæður, að það gæti verið talið móðgun við núverandi meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur, eða að það kæmi sér að einhverju leyti illa fyrir meiri hlutann að draga það fram meira en orðið er hvað þeim meiri hluta hafa verið mislagðar hendur í skipulagsmálum borgarinnar og ekki síst skipulagsmálum miðborgarinnar.

Ég vil árétta það, herra forseti, að hinn fjárhagslegi bakgrunnur þessa máls er um það ef til þess kæmi að ríkið eignaðist Landssímahúsið, sem er glæsilegt hús og myndi sóma sér mjög vel sem skrifstofuhúsnæði fyrir Alþingi, en það væri þá jafnframt hægt að falla frá þeim áformum sem eru um byggingu nýs skrifstofuhúss sem ég rakti í ræðu minni og tel ég vera ástæðu til að ætla að sú bygging kunni að vera að einhverju leyti vanfjármögnuð.

Ég vil að lokum taka undir með hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni. Það er ögurstund í málinu. Hér er neyðarhemillinn til að grípa í.