149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

velferðartækni.

296. mál
[19:47]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir ræðuna og vil jafnframt nota tækifærið til að fagna því að þessi þingsályktunartillaga sé komin hingað til umræðu, enda er ég einn af flutningsmönnunum eins og hv. þingmaður.

Það er rétt sem kom fram í ræðu hv. þingmanns að við höfum í mörgu ekki staðið okkur vel og þingmaðurinn kom með dæmi frá öðrum Norðurlöndum þar sem menn væru um margt að standa sig betur. Ég held að það sé rétt hjá honum. Víða annars staðar á Norðurlöndunum eru menn komnir miklu lengra, jafnvel farnir að útvega einstaklingum flókin tæki í heimahús, flókinn tækjabúnað, sem þeim er jafnvel bara kennt á til að hjálpa viðkomandi að búa betur og geta betur annast sjálfa sig.

Þá kemur eiginlega að spurningunni, eða vangaveltum öllu heldur, sem mig langar að ræða aðeins við hv. þingmann, og það er þetta: Á öðrum Norðurlöndum er það víðast hvar þannig að sveitarfélögin eru ábyrg fyrir öldrunarþjónustunni og eru líka ábyrg fyrir rekstri hjúkrunarheimila, öfugt við það sem gerist á Íslandi þar sem félagsþjónustan er annars vegar á ábyrgð sveitarfélaganna og hins vegar eru hjúkrunarheimilin á ábyrgð ríkisins.

Mig langar að ræða við þingmanninn hvort hann telji að það geti verið að áhugaleysi eða meint áhugaleysi íslenskra sveitarfélaga á að grípa til tækninnar í meiri mæli en þau hafa gert, geti að einhverju leyti legið í því að ekki er beinlínis hægt að halda því fram að það sé a.m.k. fjárhagslegur hagur sveitarfélaganna undir í því að útvega skjólstæðingum sínum tækjabúnað vegna þess að ríkið tekur við þeim ef sveitarfélögin geta ekki lengur séð um þá.