149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

velferðartækni.

296. mál
[20:04]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að biðjast afsökunar á því að hafa verið ónákvæmur í orðavali. Auðvitað er það rétt hjá hv. þm. Ásgerði K. Gylfadóttur að bæði dvalarheimili og hjúkrunarheimili í nokkrum tilvikum eru starfrækt á vegum sveitarfélaga en fjármögnunin er á hendi ríkisins. Það er líka rétt að staðið hefur verið að öldrunarþjónustunni með miklum myndarbrag á Akureyri, en Akureyri var og er með þetta á sinni könnu alfarið, var annað tveggja sveitarfélaga sem var tilraunaverkefni og gafst mjög vel. Það er óumdeilt að gæði þjónustunnar urðu meiri. Höfn í Hornafirði var hitt sveitarfélagið. Svo deila menn auðvitað um kostnað. Auðvitað kostar allt sitt. Á Akureyri er afar metnaðarfullur forstöðumaður í öldrunarþjónustunni, Halldór Sigurður Guðmundsson, og hann kann stafrófið í velferðartækni býsna vel og það verður áhugavert að fylgjast með framvindunni þar. En sannast sagna þá hef ég á tilfinningunni að hann hafi talað fyrir býsna daufum eyrum lengi vel hvað þessa þætti varðar.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að einn þátturinn sem ýtir undir það að við eigum að nýta okkur þessa velferðartækni er auðvitað framtíðarhorfur varðandi mönnun. Við getum ekki vænst þess að geta mannað eins vel og mikið og við gerum í dag. Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því hún hefur svo góða innsýn inn í þennan geira, hvort hún hafi dæmi um (Forseti hringir.) lausnir sem menn eru að nota á sviði velferðartækni á Íslandi í dag.