149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

velferðartækni.

296. mál
[20:09]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásgerði K. Gylfadóttur fyrir svarið. Mig langar að veita andsvar síðara sinni og fræðast aðeins um það hver hennar reynsla er gagnvart innleiðingu á velferðartæknilegum lausnum. Hvernig taka starfsmenn þessu? Taka þeir þessu fagnandi? Eru þeir tortryggnir? Hvernig sér hún fyrir sér þróun meðal starfsfólks í öldrunarþjónustu með því að við förum að taka inn og hagnýta okkur fleiri lausnir á þessu sviði? Er það mat hennar að hugsanlega verði menn á varðbergi gagnvart því að taka þær inn? Þær eru ýmislegar, bæði einfaldar og flóknar eins og hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson kom inn á. Það eru til einfaldar og flóknar lausnir, bæði ódýrar og dýrar. Einfaldur búnaður í heimahús kostar kannski 10.000 kr. sem kemur að mjög góðu gagni.

Ég leyfi mér að nefna á hraðbergi tvö dæmi sem ég upplifði. Annað er á Ísafirði í íbúðum aldraðra. Þar var einföld aðferð meðal íbúanna sem voru sjálfbjarga, bjuggu í þjónustuíbúð fyrir aldraða. Það var þannig kerfi að þegar þeir vöknuðu á morgnana þá fóru þeir fram á gang og kveiktu ljós sem var fyrir utan hurðina hjá þeim, það var staðfesting um að viðkomandi var kominn á fætur og allt í lagi. Annað er dæmi sem ég kynntist fyrir 25 árum í Bergen, fyrir 25 árum, hugsið ykkur. Þar var það þannig í þjónustukjarna að ef ekki var búið að sturta niður úr klósettinu fyrir ákveðinn tíma dagsins þá fór skynjari í gang og þjónustukjarni gerði aðvart. Svona lausnir eru til af öllu tagi.