149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Úrskurðað er sem svo að sorpmeðferð telst ekki nægjanlega umhverfisvæn hér á landi og endurnýting ekki fullnægjandi. Það eru vandræði í flestum landshlutum nema á suðvesturhorninu. Skiptir miklu máli að hér sé allt í góðu gengi og ekki hvað síst þegar horft er til ímyndar Íslands og stöðu loftslagsmála.

Með nýrri jarðgerðar- eða metanstöð Sorpu er stigið stórt framfaraskref. Ég hef hvatt til þess að ríkisstjórnin komi á fót verkefnishópi, skipuðum fulltrúum ríkis og sveitarfélaga og sérfræðinga og verkefni hans þyrftu að vera þessi helst: Samræmt skylduflokkunarkerfi fyrir allt landið, skipting landsins í umdæmi samlags í hverju þeirra, flutningskerfi úrgangs innan hvers umdæmis með lágmörkun aksturs, endurvinnsla innan lands þar sem hentar og endurnýting eins og unnt er, flutningur til útlanda frá tilteknum höfnum, jarðgerð og metanframleiðsla í hverju umdæmi, eins konar míní-Sorpa, brennsla úrgangs, aðeins þar sem ýtrasta þörf krefur og urðun óvirks úrgangs eingöngu.

Kostnaður er og verður töluverður við slíkt og í mörgum tilvikum umfram tekjur. Þess vegna þarf að koma til samkomulag ríkis og sveitarfélaga hvernig fjármálum skuli hagað í þágu umhverfis og íbúa. Má vel vera að hækkun gjalda þurfi að hluta til til að málaflokknum sé vel borgið.

Það er nú einu sinni þannig að ekki er hægt að reka svona þjónustu með hagnaði eða hagnaðardrifna, þannig að verkaskipting ríkis og sveitarfélaga þarf að koma að og töluvert framlag ríkisins í þágu íbúa og umhverfis eins og ég sagði.

Ég tel að koma verði meðferð úrgangs í fullnægjandi horf á tveimur til þremur árum í mesta lagi og fram að því þarf að halda úti virku kerfi með bráðabirgðalausnum.

Hér er stórt og þverpólitískt verkefni að vinna og sú vinna er þegar hafin að hluta í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.