149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Í gær komu fram tillögur ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í skattamálum og þær komu ofan á það sem þegar hefur verið gert og boðað í tengslum við kjaraviðræður. Það sem hefur verið leiðarstefið er að allar þær breytingar sem gerðar eru á skatta- og bótakerfum komi þeim sem minnst hafa best. Það er réttlætismál og beinlínis gott fyrir samfélagið. Fólki líður betur í jafnari samfélögum og jafnara samfélag er betra samfélag fyrir alla.

Ríkisstjórnin hefur hækkað frítekjumark vegna atvinnutekna elli- og örorkulífeyrisþega úr 25.000 í 100.000 kr. og hefur hækkað fjármagnstekjuskatt. Hún hefur hækkað greiðslur í Ábyrgðasjóð launa og hækkað óskertar grunnatvinnuleysisbætur um nær 20%, hækkað barnabætur, hækkað endurgreiðslur vegna tannlæknakostnaðar elli- og örorkulífeyrisþega og hún hefur breytt lögum um starfsmannaleigur og innleitt keðjuábyrgð í ákveðna geira. Hún hefur þyngt dagsektir tífalt vegna brota á lögum um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum. Framlög til heilbrigðismála hafa verið stóraukin og byrjað að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Þar var byrjað á viðkvæmasta hópnum, öldruðum og öryrkjum. Þá eru boðaðar breytingar gegn félagslegum undirboðum, kennitöluflakki og mansali.

Nýja lágtekjuþrepið í tekjuskattinum er stórt skref í rétta átt. Það er nákvæmlega það sem þessi ríkisstjórn boðaði, að þær aðgerðir sem ráðist yrði í í skattamálum yrðu til að lækka skattbyrði tekjulágra og lægri millitekjuhópa. Það færir íslenska skattkerfið í áttina að norrænu skattkerfunum frá flötum skattkerfum. Ég hlýt einnig að fagna áformum um að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði. Það er stórt skref í jafnréttismálum.

Þá er boðuð efling félagslegs húsnæðiskerfis, m.a. með því að bæta við í uppbyggingu almenna íbúðakerfisins á næstu árum. Það er stórt skref í áttina að því að koma á heilbrigðum leigumarkaði. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mun halda áfram að taka skref til aukins jöfnuðar í íslensku samfélagi.