149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við Íslendingar viljum verja heilsu landsmanna. Við hleypum ekki salmonellukjúklingi á bakka, honum er hent. Við gerum miklar kröfur til matvælaframleiðslu og erum í mjög eftirsóttri í stöðu hvað varðar öryggi matvæla. Við höfum alla möguleika og burði til að standa öðrum þjóðum framar hvað varðar framleiðslu á heilnæmum matvælum, bæði sjávar- og landbúnaðarafurðum. Það er ekki sjálfgefið að matvæli eigi að flæða frjálst á milli landa eins og hverjar aðrar vörur, ekki í þeim tilfellum þegar verja þarf lýðheilsu gegn matvælum sem haft geta skaðleg áhrif á heilsu manna.

Ísland býr við þá sérstöðu umfram önnur lönd að auðveldara er að verjast sjúkdómum, forðast sýklalyfjaónæmi og draga úr útbreiðslu slíkra baktería vegna þess að við erum eyja með hreina búfjárstofna.

Íslenskir bændur hafa staðið vaktina, ræktað landið og unnið gæðaframleiðslu, gæðafæðu, sem nýtur sannarlega nokkurrar sérstöðu þar sem t.d. má nefna að hér er lyfjanotkun hvað lægst í heiminum og bann er við notkun á erfðabreyttu fóðri. Markmið landbúnaðarkerfisins hníga öll í þá átt að tryggja landsmönnum heilnæm matvæli í hæsta gæðaflokki sem uppfylla ýtrustu skilyrði um aðbúnað.

Við ræðum oft um íslenskan landbúnað, mikilvægi hans, hreinleika og einstakar aðstæður sem við höfum hér á landi, þar sem við búum á eyju og getum varið okkur gagnvart sjúkdómum og öðru slíku. Þess vegna þurfum við að standa á verði núna.

Við stöndum núna frammi fyrir því að hér verði breytingar, en við megum aldrei fara þá leið að lög og dómar yfirtaki raunverulegan ávinning fyrir samfélagið. Við erum að tapa sérstöðu vegna þess að við erum að takast á við lagaþvælu á meðan við ræðum ekki raunverulegan vanda. Tökum umræðuna á hærra plan og hlustum á fólk sem hefur þekkingu og reynslu. Það snýst ekki bara um ábata bænda og neytenda, vernd heilbrigðra bústofna, stundargróða fárra aðila í verslun, heldur framtíð okkar og barnanna okkar, lýðheilsu og almennt heilbrigði til framtíðar.

Við Framsóknarmenn bjóðum til fundar og umræðu um þessi mikilvægu mál í Bændahöllinni annað kvöld. Hér eru miklir hagsmunir fyrir land og þjóð. (Forseti hringir.) Við skulum ná umræðunni upp á hærra plan.