149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Rafsígarettur eða veipur eru sennilega orðnar prýðilegt hjálpartæki til að venja fólk af tóbaksnotkun. Það er óumdeilt að reyktóbak er eitur og hefur skaðleg áhrif á heilsu þeirra sem það nota. Í tóbaksreyk er fjöldinn allur af eiturefnum öðrum en nikótíni. Að þessu leyti eru veipur ágætt tæki til að venja fólk af reyktóbaki, enda þrátt fyrir allt skárri en sígarettur.

Kannanir sýna að stór hluti efri bekkja grunnskóla notar veipur daglega. Börn ánetjast vatnsreyk með kirsuberjabragði eða öðru bragði og átta sig ekki á því fyrr en um seinan að þau eru orðin nikótínfíklar. Rafrettugufa er einnig ertandi fyrir lungu og þar sem lungu ungs fólks eru enn að taka út þroska á þessum tíma hefur rafrettuvökvi áhrif á lungun.

Veipur eru framleiddar með alls kyns bragðefnum. Þær eru orðnar að tísku, einkum meðal ungs fólks, og fyrir tveimur dögum birtist frétt um að í hátískuversluninni Barneys New York opnar þar lúxuskannabisbúð í útibúi sínu í Beverly Hills í næsta mánuði. Búðin heitir The High End og verður þar hægt að kaupa ýmiss konar kannabisvarning eins og snyrtivörur, veippenna og 180.000 kr. kvörn. Ætlunin er að ýta menningunni í þá átt að menn geti mætt með fínan kannabisvarning í matarboð líkt og þeir myndu mæta með vínflösku. Stefnan er að færa fólki upplifun á skjön við staðalímynd kannabisneytenda sem dúsa heima hjá sér að borða pítsu allan daginn.

Að þessu sögðu langar mig að segja að innan úr meðferðargeiranum hér heima hef ég þær fréttir að sjúklingum af völdum kannabis í veipi fari nokkuð fjölgandi og er það áhyggjuefni.