149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Sem talsmaður barna fyrir þingflokk Pírata, á grundvelli verkefnis sem UNICEF er með, sem Barnaheill er með og sem umboðsmaður barna er með, hef ég reynt að grennslast fyrir um það hvernig uppfylla eigi lög um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna.

Ég hef spurt félagsmálaráðherra um tvö börn sem fæddust bæði á Íslandi. Annað þeirra fær ekki dvalarleyfi þó að foreldrarnir séu með námsmannadvalarleyfi. Þar er gat. Hvað varðar hitt barnið eru foreldrarnir að sækja um að fá dvalarleyfi hérna og það ferli er í meðferð, en barnið fær það ekki og ég fékk það staðfest í dag. Ég hitti þau í dómsal og talaði við lögfræðing þeirra. Þetta er hún Erna Reka, 19 mánaða gömul. Hún fær ekki kennitölu, fær ekki lögheimilisskráningu og fær þar af leiðandi ekki þau félagslegu réttindi sem sagt er að við eigum að veita börnum algerlega óháð stöðu foreldranna. Það er staðan.

Ég spurði UNICEF: Hvað stendur helst í vegi fyrir því að lög um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins séu í fullu gildi? Þar segir að dómstólar, löggjafi og framkvæmdarvald eigi að setja það í forgang sem er barninu fyrir bestu. Það eru lögin í landinu. Ég spyr: Hvað stendur í vegi fyrir að það sem stendur þar um réttindi barnsins sé uppfyllt? Þau sögðu: Það er innleiðingarvandamál hjá ríkinu. Þarna stöndum við frammi fyrir 19 mánaða gömlu barni sem á að hafa sömu réttindi og önnur börn, óháð stöðu foreldra, samkvæmt lögunum, en þjóðskrá vill ekki gefa kennitölu, Útlendingastofnun vill ekki veita dvalarleyfi. Þó að heimild sé til að veita undanþágu til að tryggja réttindi barns strandar það á þeim stofnunum. Heilbrigðisstofnanir geta því ekki veitt heilbrigðisþjónustu á við það sem önnur börn á Íslandi njóta og skólayfirvöld geta ekki veitt leikskólapláss eða skólavist. Réttindi barnsins eru brotin hvað þetta varðar.

Ég ætla að spyrja í kjölfarið um (Forseti hringir.) skýrslu til forsætisráðherra, hún ætlar að taka við henni, um réttindi barnsins: Hverjir eiga að framfylgja öllum réttindum barna í landinu? Ég spyr alla ráðherra sem málið varðar; heilbrigðisráðherra, menntamálaráðherra, félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra: Hvernig stendur á því að staðan er svona? Við munum komast til botns í því.