149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Brotastarfsemi og kerfisbundinn launaþjófnaður viðgengst á vinnumarkaði hér á landi, því miður. Málið hefur verið töluvert í umræðunni undanfarið. Aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands hafa sérstaklega kallað eftir því að refsað verði fyrir launaþjófnað með sektargreiðslum. Í dag geta stéttarfélögin einungis gert kröfu um afturvirkar launagreiðslur með dráttarvöxtum vegna vangoldinna launa. Á síðasta ári vann nefndasvið Alþingis lagafrumvarp fyrir Miðflokkinn um starfskjör launafólks og sektarákvæði vegna brotastarfsemi á vinnumarkaði. Tilgangur frumvarpsins er fyrst og fremst sá að viðurlög liggi við þeirri háttsemi að greiða laun undir lágmarkstaxta. Frumvarpsdrögin með sektarákvæði sendi ég til ASÍ fyrir ári síðan til að fá viðbrögð þaðan. ASÍ lagðist gegn því að sekta atvinnurekendur sem stundi launaþjófnað en taldi vænlegra að hafa ákvæði sem heimili að lagt yrði álag ofan á vangoldin laun svipað og skattyfirvöld gera vegna skattsvika. Breytti ég því frumvarpinu eftir þessar athugasemdir og sendi aftur í október sl. til verkalýðsfélaganna VR, Eflingar og ASÍ. Núna, fjórum mánuðum síðar, hef ég ekki fengið neitt svar.

Herra forseti. Alþingi hefur verið gagnrýnt fyrir ýmislegt og sumir halda því fram að þingmenn geri yfir höfuð lítið. Ég hef í þessu máli lagt mig fram um að löggjafinn taki á þeirri meinsemd sem launaþjófnaður er orðinn í okkar samfélagi. Ekki verður annað séð samkvæmt þessu en að verkalýðsfélögin sýni þessu mikilvæga máli takmarkaðan áhuga.