149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimilaði í gær áframhaldandi veiðar á langreyði og hrefnu til ársins 2023. Sagði hann að ákvörðunin byggðist á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar sem er alls ekki óumdeild eins og við þekkjum, ásamt minnisblaði frá Hafrannsóknastofnun vegna skýrslunnar. Þessi ákvörðun eru þeirri sem hér stendur mikil vonbrigði og ég spyr mig hverju það þjóni að veita slík leyfi. Vissulega kemur fram í skýrslu Hagfræðistofnunar að lítið bendi til þess að hvalveiðar hafi neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og ímynd Íslands út á við en það var ekkert samráð haft við ferðaþjónustuna og engir útreikningar eru til staðar um það hver áhrifin gætu verið af stórauknum hvalveiðum við Íslandsstrendur, ekki síst á hvalaskoðunarfyrirtækin og ferðaþjónustuna í heild.

Samkvæmt skýrslunni voru 46 hrefnur veiddar árið 2016. Þá voru rekstrartekjur af veiðunum tæplega 42 millj. kr. Bókfært tap af rekstrinum nam hins vegar 3,8 millj. kr. Ég tel að við höfum nú þegar varið allt of háum upphæðum af opinberu fé til að styrkja örfáa áhugamenn um hvalveiðar og eins og kemur fram stóðu veiðarnar ekki undir sér rekstrarárin 2014–2017.

Þá koma fram upplýsingar í skýrslunni sem gefa til kynna að ekki sé farið að lögum um velferð dýra við aflífun hvala. Miðgildi tíma frá skoti að skráðum dánartíma hjá hvölum sem ekki drápust samstundis var átta mínútur sem getur ekki talist viðunandi við slátrun nokkurra dýrategunda.

Fátt bendir til þess að hvalveiðar muni nokkru sinni ná fyrri stöðu í atvinnulífinu og enn minni líkur eru á að slíkar veiðar öðlast viðurkenningu alþjóðlegra stofnana á sviði umhverfisverndar. Að mínu mati er grundvallarforsenda nýtingar náttúruauðlinda að hún sé byggð á sjálfbærni eins og ríkisstjórnin hefur ítrekað og sjávarútvegsráðherra ítrekaði í viðtali á RÚV 17. janúar sl.

Það þýðir að efnahagsleg áhrif séu jákvæð, að félagsleg áhrif séu jákvæð og að auðlindin verði ekki sköðuð til framtíðar. Meðan ekki eru fyrirsjáanlegir markaðir fyrir hvalkjöt má gefa sér að veiðarnar verði ekki sjálfbærar því að ef ekki er markaður fyrir kjötið er efnahagslegur ávinningur enginn. (Forseti hringir.) Við eigum heldur ekki að taka séns á því að stofna einum mikilvægasta atvinnurekstri okkar í hættu sem er ferðaþjónustan. Við höfum ekki efni á því. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)