149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Einar Kárason (Sf):

Herra forseti. Ég held að fátt sé mikilvægara fyrir okkur sem nú erum á dögum en að tryggja að komandi kynslóðir viti hver á þetta land og þau gögn sem því tilheyra, þar á meðal okkar mikilvægustu auðlind, fiskimiðin. Í lögum stendur að þjóðin eigi fiskimiðin og rétt til afnota af þeim. Um þetta er merkilegt nokk deilt og margir halda því ýmist fram að þjóðin geti ekki átt neitt eða þá að fiskurinn eigi sig sjálfur í sjónum.

Hægt er að skera úr um þetta í eitt skipti fyrir öll með því að samþykkja nýja stjórnarskrá. Ég fylgdist með umræðum um störf þingsins í gær þar sem rætt var um það. Við vitum að markvisst hefur verið unnið að því að setja nýja stjórnarskrá í slétt tíu ár, með þjóðfundi, með stjórnlagaþingi, með þjóðaratkvæðagreiðslu og endalausum umræðum, en nákvæmlega ekkert hefur gerst.

Maður spyr sig: Hvernig stendur á því að ekkert gerist? Það er verið að leita eftir einhverri breiðri samstöðu um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar en það stoppar alltaf á einhverju. Við vitum öll, og þess vegna ákvað ég að taka hér til máls í dag, á hverju stoppar. Það stoppar á því að þeir sem telja sig eiga þessi fiskimið í dag eða fullkominn afnotarétt yfir þeim geta ekki fellt sig við svona ákvæði.

Við sjáum bæði orð og jafnvel dóma eins og þann sem gekk um makrílmálið í fyrra að menn þykjast hafa eitthvað fyrir sér í því að ríkisvaldið eða hið opinbera hafi mun minna yfir þessu að segja en þeir sem gera út á fiskimiðin núna. Þess vegna segi ég að við verðum að hætta að hlusta á raddir fulltrúa þessara afla. Við verðum að taka þetta út, ganga frá þessu, setja um þetta nýtt ákvæði í stjórnarskrána og það fyrir næstu kosningar. Síðan má í framtíðinni klára önnur mál eins og um beint lýðræði og hlutverk forsetans.