149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[15:42]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við fjöllum hér um og greiðum atkvæði um fullgildingu á uppfærðum fríverslunarsamningi við Tyrkland. Í fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna við önnur lönd eru ákvæði um að aðildarlöndin staðfesti skuldbindingu sína um að styðja við lýðræði, réttarreglur og mannfrelsi í samræmi við skyldur sínar. Þetta á við um aðra fríverslunarsamninga sem Ísland á aðild að.

Hefur það verið kortlagt hvernig fríverslunarsamningar EFTA stuðla að mannfrelsi, lýðræði og réttarreglum í þeim ríkjum sem EFTA-ríkin hafa samið við? Hvernig hefur fríverslunarsamningur við Tyrkland stuðlað að lýðræði og mannfrelsi í Tyrklandi Erdogans þar sem neyðarlög ríkja enn þá, hundruð blaðamanna sitja í fangelsi, starfsfólk mannréttindasamtaka hefur verið fangelsað og Kúrdar hafa verið ofsóttir og fangelsaðir án dóms og laga? Þetta allt hefur átt sér stað alla tíð frá því að fríverslunarsamningur Íslands var gerður við Tyrkland árið 1992.

Ef við ætlum að vera heiðarleg væri hreinlegast að sleppa formálsorðum fríverslunarsamninga þar sem áréttað er að kveðið sé á um skuldbindingu ríkja um að styðja við lýðræði, réttarreglur og mannréttindi. (Forseti hringir.) Hvernig í ósköpunum er því fylgt eftir, herra forseti?