149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[15:45]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég trúi því að aukin samskipti á milli þjóða í gegnum viðskipti, fríverslunarsamninga og fleira stuðli að auknu lýðræði og mannréttindum. EFTA-ríkin gerðu fríverslunarsamning við Tyrki 1992 og síðan þá hefur þróun mannréttindamála bara verið á einn veg að mínu mati, niður á við. Mannréttindi eru brotin þar í auknum mæli og það er ekki að sjá að samningurinn frá 1992 hafi endilega skilað því sem ég vil sjá. Hins vegar styð ég og við í Viðreisn að sjálfsögðu að þessi samningur verði fullgiltur og víkkaður út eins og lagt er fyrir í þeirri trú og vonandi í þeirri vissu að farið verði í heildarendurskoðun á því hvernig einmitt fríverslunarsamningar hafa reynst, m.a. til að kynda undir og stuðla að auknum mannréttindum víða um heim, ekki síst við þær þjóðir sem við Íslendingar höfum viðskipti og samskipti við.