149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum.

152. mál
[16:02]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir ágæta framsögu. Það má auðvitað segja að allar rannsóknir í þágu samgöngumála séu af hinu góða. Ég verð að viðurkenna að þarna er ein tillaga inni sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í, sem mér þykir stangast nokkuð á við þau markmið sem koma fram í greinargerð þingsályktunartillögunnar. Hún er að fram fari úttekt langtímaveðurfarsmælingar og mat á náttúrulegum aðstæðum við innanvert Ísafjarðardjúp, t.d. við Reykjanes, eins og segir í tillögunni.

Mér þætti áhugavert að heyra hvernig hv. þingmaður og meðflutningsmenn hans hugsa þá staðsetningu með tilliti til flutninga og ferðamannastraums. Ég held að meginatriðið hljóti að vera ef stæði finnst fyrir nýjan flugvöll að það sé tengt Ísafjarðarsvæðinu. Við erum með Bíldudalsflugvöll á sunnanverðum Vestfjörðum sem er sem betur fer þannig í sveit settur, alla vega síðast þegar ég vissi, að vera sá flugvöllur á Íslandi sem lokast sjaldnast vegna veðurs. Áherslan þeim megin held ég að hljóti að vera að styðja við að fjölga flugum og bæta þá þjónustu sem íbúar þar búa við. Við sjáum þann góða árangur sem náðist með því að styðja við að það væru tvö flug á dag í fyrra, sem er því miður fallið niður aftur.

Ég ítreka spurningu mína: Hvernig hugsar hv. þm. Guðjón Brjánsson könnunina á þeim eina valkosti af þremur sem snýr að mati á flugvallarstæði við innanvert Ísafjarðardjúp, t.d. við Reykjanes?