149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum.

152. mál
[16:09]
Horfa

Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki mjög klókur í landafræði en ég geri mér grein fyrir því hvar Reykjanes er. Það er ekki miðsvæðis á Vestfjörðum en er hins vegar sett inn hérna. Það er flugbraut við Reykjanes í Ísafjarðardjúpi og ég tel mjög fróðlegt allra hluta vegna að fyrir liggi veðurfarsmælingar með tilliti til flugöryggis í Reykjanesi, hvað sem framtíðin ber í skauti sér, við vitum svo lítið um hana. Ég geri mér grein fyrir því að við vinnum ekki að þeirri lausn að finna flugvöll sem gæti hentað ferðaþjónustu og atvinnurekendum, flutningum í lofti, fyrir alla Vestfirði. Auðvitað væri æskilegt að við gætum haldið úti flugbrautum allvíða. Bíldudalsflugvöllur þjónar hlutverki sínu með miklum ágætum, eins og komið hefur verið inn á, og stefnt yrði að því áfram. Menn hrósa happi yfir því að flug til Ísafjarðar hafi gengið vel í gegnum tíðina. Það eigum við að þakka frábærum flugmönnum sem kunna að meta aðstæður rétt og ætla sér ekki um of. Aðstæður eru mjög þröngar og erfiðar og hafa ratað í heimspressuna oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, þ.e. hversu ævintýralegt aðflugið er og hvers lags ævintýrastaður þetta er að lenda á. Eins og ég segi er keppikeflið að flugvöllur verði einhvers staðar miðsvæðis. Sérfræðingar skera úr um hvort slíkt sé raunhæft eða ekki.