149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum.

152. mál
[16:25]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með þessa þingsályktunartillögu og vil undirstrika að ég styð það að hún verði tekin áfram og skoðuð og helst afgreidd frá þinginu. Ég vek líka athygli á því að það eru góðir þingmenn þessa kjördæmis sem m.a. eru flutningsmenn tillögunnar. Ég held að það sé mikilvægt og sýni bæði metnað og stórhug þeirra sem að málinu standa. Þetta sýnir það sem mér finnst líka skipta máli, að við horfum á landið allt sem eina heild. Við í Viðreisn höfum ítrekað sýnt þann vilja okkar, m.a. með því að sækjast eftir því að fá að sitja fundi landsbyggðarinnar með þingmönnum hennar.

Það er hagsmunamál fyrir samfélagið allt, hvort sem er úti á landsbyggðinni eða á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu, að við hugsum um landið okkar sem heild, að það verði byggilegt og fýsilegt fyrir okkur öll að búa þar sem við kjósum að búa. Hluti af því er að byggja upp samgöngur, hafa t.d. skoðun á því hvernig við viljum sjá Vestfirði eiga möguleika á því að halda áfram að þróast, vaxa og helst dafna.

Lykill að því er samgöngumál sem eru einn stærsti parturinn, auðvitað heilbrigðismál líka, sem óbeint og beint tengjast samgöngumálum, og menntamálin. Samgöngumálin eru lykilþáttur fyrir Vestfirði, ekki bara þingmenn kjördæmisins heldur okkur öll sem höfum tekið þátt í umræðunni um samgöngumál síðustu 20 árin í þinginu. Við þekkjum að þau eru lykillinn að því að gera svæðið lífvænlegt fyrir Vestfirðinga sem vilja búa þar og dvelja. Þess vegna er mikilvægt að Dýrafjarðargöngin eru farin af stað og vel það. Þau eru komin langleiðina en það þarf að klára líka þann enda eins og við vitum og við þurfum að fullklára, ekki bara segja A, við þurfum að þora að segja líka B og C og allt stafrófið helst til þess að það verði byggilegt.

Hér erum við að ræða um staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum. Ég hef fundið það á ferðalögum mínum um Vestfirði þar sem ég hef rætt mikið við heimamenn að það er brýnt að fara í málið og í rauninni ekki annað en ábyrgt ef á að fara að setja þangað meira fjármagn, eins og segir m.a. í þingsályktunartillögunni, með leyfi forseta:

„Í ljósi reynslunnar og íslenskrar flugsögu er tæpast skynsamlegt að veita fé til framkvæmda nema hægt sé að uppfylla nútímakröfur um aðflugs- og fráflugsferla …“

Þar er Isavia dregið inn. Í því sambandi tel ég gríðarlega mikilvægt að við breytum einmitt svolítið starfsemi Isavia og setjum fyrirtækinu eigendastefnu. Það er kominn tími til að ríkisstjórnin setji fram eigendastefnu sem felur í sér ábyrgð gagnvart landsbyggðinni, gagnvart Vestfjörðum, gagnvart alþjóðafluginu, m.a. á Akureyri og síðan á Egilsstöðum. Það er gríðarlega mikilvægt að við förum að ýta verkefninu af stað enda verður stuðningur fyrir Isavia að víkka út sitt víða samfélagslega hlutverk. Það skiptir að mínu mati máli og ég myndi styðja þetta mál.

Heimamenn segja mér að það sé einmitt fýsilegt að skoða fleiri kosti en Ísafjarðarflugvöll sem er barn síns tíma eins og komið hefur fram. Menn eru að tala um Hnífsdal eða Skutulsfjörð á því svæði. Einnig hafa aðrir staðir verið nefndir, t.d. Þingeyri. Ég hef reynslu af því að sitja í svonefndri Rögnunefnd sem hafði það hlutverk að kortleggja m.a. flugvallarstæði í nágrenni Reykjavíkur. Lengi hefur verið talað um Hólmsheiði. Síðan kom í ljós eftir fullnaðarkönnun nefndarinnar að Hólmsheiði var bara ekki fýsilegur kostur. Þá var hægt að ýta þeim kosti út af borðinu, hætta að tala um hann.

Þess vegna tel ég mikilvægt að nóg fjármagn verði sett í könnun þannig að hægt verði að klára þetta á skemmri tíma á einhverjum árum, eins og sumir hafa talað um, helst á þeim tveimur árum, þeim lágmarkstíma sem hægt er að framkvæma haldbæra könnun og taka þá inn þá kosti sem hugsanlega koma til greina og setja í þá fjármagn. Þetta er gríðarlega mikilvægt, ekki síst fyrir Vestfirði til að ýta við viðskiptalífinu. Við sjáum það líka ef það verður beint millilandaflug en ekki síður þarf að tengja flugvelli markvissar og reglulegar við millilandaflugvöll. Við sjáum ekki bara ágætlega sterkan sjávarútveg heldur ekki síður fiskeldið sem er að vaxa og þá þurfa að vera greiðar samgöngur við markaði.

Varðandi stjórnsýsluna skiptir líka máli að samgöngur séu greiðar en skortur á því hefur einmitt stuðlað að því að uppbygging atvinnulífs hefur ekki verið sem skyldi eða hefði getað orðið á norðanverðum Vestfjörðum líka, svo ég tali nú ekki um heilbrigðisþjónustuna. Það er ekkert hægt að mæla gegn því að við reynum að koma upp öflugum heilbrigðisstofnunum. Við þingmenn Viðreisnar fundum það þegar við fórum um Norðausturkjördæmið að til að mynda Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík er að gera gríðarlega mikilvæga hluti, tengja sig með nýjum hætti og nota nýja tækni. Það var ánægjulegt að finna hvað heimafólkið var stolt af þessari stofnun sem þjónar stóru svæði. Það er ekkert óeðlilegt að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða geri það líka en þá verða að vera greiðar samgöngur.

Þess vegna bendi ég á að samgöngur við norðurhluta Vestfjarða verði að vera sem fyrst komnar í lag til að þær geti sinnt suðurhlutanum sem skyldi. Þá er ekki síður að við höfum greiðar flugsamgöngur líka að norðan, frá Ísafirði suður til Reykjavíkur þar sem þjóðarsjúkrahúsið er. Við í Viðreisn leggjum áherslu á að horfa á okkur sem samfélag í heild með mismunandi áherslum. Það eru meira að segja mismunandi áherslur íbúa í Hafnarfirði gagnvart íbúum í Reykjavík eða á Seltjarnarnesi. Auðvitað eigum við að reyna að mæta þeim ólíku þörfum sem eru víða um landið og ákallið er betri samgöngur að vestan. Þetta er einföld krafa og hún er bæði skýr og skiljanleg.

Það er líka hægt að nefna þau sóknarfæri sem eru í ferðaþjónustu. Þó að það sé tímabundið einhver samdráttur í ferðaþjónustunni getur landið okkar tekið við fleiri ferðamönnum. Við sjáum ákveðin sóknarfæri, eins og ég hef áður nefnt, á norðaustursvæðinu með tengingu við Akureyri, Húsavík og það svæði allt, Þingeyjarsýslurnar, en ekki síður Ísafjörð og Vestfirði alla sem hægt er að beina ferðamönnum til, enda magnað svæði sem hefur margt fram að færa, ólíkt að sumu leyti, sem er ákjósanlegt til að byggja upp fjölbreytta og öfluga ferðaþjónustu. Til þess þarf enn og aftur, virðulegur forseti, flugvöll þar sem hægt er að treysta á reglubundnar flugsamgöngur, ekki eins og oft hefur verið þegar tíðni flugs hefur fallið niður í allt að 50–70% að vetrarlagi. Auðvitað er þá erfitt að treysta á svona samgöngumáta. Þetta er bara ekki boðlegt og ég hlýt að leyfa mér, þó að ég sé búsett hér, að segja það líka fyrir fólkið fyrir vestan. Það er ekki hægt að bjóða Vestfirðingum upp á þetta. Við getum talað um málið, tekið fyrsta skrefið, klárað m.a. þessa þingsályktunartillögu þar sem verður farið í kortlagningu á vandanum. Ég vil meina að hæstv. samgönguráðherra gæti líka ákveðið það bara á sínum forsendum í gegnum samgönguáætlun, aðeins að horfa til lengri tíma og ákveða það sjálfur en við viljum ekki bíða allt of langan tíma með að afgreiða þetta mál hér.

Þessu máli verður að ýta áfram hvernig sem við gerum það. Ýmsir hér í salnum eru ekkert endilega mjög elskulegir gagnvart Evrópusambandinu en Evrópusambandið setur kröfur um 90% lendingartíðni. Ég held að ég sé nokkurn veginn viss um að það sé krafan varðandi flugöryggi á völlum. Þetta er eðlileg krafa sem við eigum að gera fyrir okkar samfélag hér og treysta og styðja. Gerum þetta vel, vöndum okkur, setjum meiri kröfur á Isavia, látum Isavia verða ábyrgt fyrir meira en bara Keflavíkurflugvelli. Setjum fyrirtækinu nýja eigendastefnu, förum í greiningu, kortlagningu, fýsileikakönnun á því hvaða flugvallarstæði er best fyrir vestan þannig að við getum byggt upp samgöngur sem auka öryggi fólksins, hvort sem er heilbrigðisöryggi eða annað öryggi í því samfélagi. Það er hægt að gera með því að kanna fýsileika þeirra flugvallarstæða sem til staðar eru.

Þess vegna ítreka ég það að við í Viðreisn styðjum þessa tillögu til þingsályktunar og vonum að þingmenn í umhverfis- og samgöngunefnd dvelji ekki allt of lengi við hana. Margt liggur fyrir, ótal gögn eru til og þess vegna hvet ég hana til þess að fara mjög rösklega yfir þessa tillögu.