149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum.

152. mál
[16:56]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls undir þessum lið, enda held ég að ég hafi svo sem ekkert sérstaklega við þetta að bæta.

En þegar hv. þingmaður fór að ræða Geimvísindastofnun Evrópu vaknaði ég aðeins til lífsins því að ég hef haft mikinn áhuga á því að við sækjum um aðild að henni. Samþykkt var þingsályktunartillaga, sem kom frá Pírötum á sínum tíma, í október 2016 um að fela utanríkisráðherra að sækja um aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu að undangenginni nánari skoðun á skuldbindingum samfara aðild.

Ég forvitnaðist um stöðu þeirra mála stuttu eftir að ég kom á þing haustið 2016 og ræddi þá við fulltrúa í ráðuneytinu sem sagðist vera að ýta þeim málum áfram. Ég veit líka að framkvæmdastjóri ESA kom hingað til lands í júlí 2017 og hafði þá áhuga á að hitta fólk úr stjórnsýslunni.

Ég verð að viðurkenna að hv. þingmaður er mun betur að sér í flugi en nokkru sinni ég og hvaða tengingu það nákvæmlega hefur varðandi staðsetningarval á flugvelli á Vestfjörðum átta ég mig ekki á, en mér finnst mikið hagsmunamál fyrir Ísland að verða aðili að þeirri stofnun. Ég hef meira verið að hugsa það út frá nýsköpun og tækni en ég efast ekki um að það geti líka verið út frá flugöryggismálum og slíku.

Það væri kannski ágætt að fá sýn þingmannsins á þá þætti. Svo held ég að við ættum að sameinast um að láta þessa þingsályktunartillögu verða að veruleika svo að Ísland verði aðili að Geimvísindastofnun Evrópu innan tíðar.