149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum.

152. mál
[16:57]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Eins og ég minntist á áðan er ég áhugamaður um Geimvísindastofnun Evrópu og þau mál sem heyra undir hana og sérstaklega gervihnattaleiðsögn, sem ég held að sé risamál fyrir Ísland. Þetta er miklu stærra mál en ég held að fólk almennt átti sig á og nota þess vegna öll tækifæri til að minna á mikilvægi í málum sem snúa að því.

Ég var með fyrirspurn rétt eftir að ég byrjaði á þingi um hvar þau mál væru stödd í stjórnkerfinu og annað. Ég var ekkert voða sáttur við svarið. Það var ekki nógu gott.

Vandamálið í því máli gæti mögulega verið að einhverju leyti að þrjú ráðuneyti koma að því. Við þurfum að fikra okkur áfram í því hvernig við ætlum að leysa það.

Ég held að mikill vilji sé á þingi fyrir því að við verðum aðilar að Geimvísindastofnun Evrópu. En málið fellur að einhverju leyti undir utanríkisráðuneytið, samgönguráðuneytið og fjármálaráðuneytið. Þar er eignarhaldið í dag, bréfið, Isavia, staðsett. Við þurfum einhvern veginn að ná þeirri niðurstöðu fram. En þetta er staðan.

Það var líka heilmikil umræða um þetta á Arctic Circle sl. haust. Þar voru málstofur um þau efni. Ég var erlendis vegna starfa NATO-þingsins þannig að ég náði ekki þeirri umræðu. En eins og ég kom inn á áðan er okkur gríðarlega mikilvægt á mörgum sviðum að komast þarna inn. Ég held með fjórðu iðnbyltinguna, tækni og vísindi — ég hef haldið þrjá, fjóra fundi í utanríkisráðuneytinu um þau mál með vísindasamfélaginu og ýmsum tæknistofnunum í landinu til að reyna að ýta undir þetta. Á síðasti fundi voru um 30 manns, þar var vísindasamfélagið á Íslandi komið að borðinu. Þetta er áhugavert.