149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum.

152. mál
[17:00]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að tala hratt, hver einasta sekúnda er svo dýrmæt í pontu. Ég fagna umræðunni um Geimvísindastofnun Evrópu og mögulega aðild Íslands að ESA.

Í liðinni kjördæmaviku fórum við Píratar m.a. til Húsavíkur. Við skoðuðum geimvísindasafnið á staðnum og fengum góða kynningu á því, sögu þess og aðdraganda frá Örlygi Hnefli — Hnefill? Ég kann ekki að beygja Hnefil. Hann heitir Örlygur Hnefill Örlygsson sem sýndi okkur safnið og sagði frá. Þetta var stórmerkilegt. Hann rakti þegar Neil Armstrong kom endurtekið til landsins þegar verið var að þjálfa geimfara og sýndi okkur hluti sem hann átti, peysu og alls konar. Það var mjög gaman að komast í tæri við þá hluti og söguna, sem er stórmerkileg.

Menn fóru til tunglsins 1969 en síðan þá hefur heldur betur verið framför í geimvísindum og hafa náðst margir stórir og merki áfangar í þeim efnum. Örlygur hrósaði okkur Pírötum fyrir að hafa lagt fram þingsályktunartillögu um aðild og sagði synd að tillagan fyrir tíu árum síðan hefði verið dregin til baka.

Ég hef ákveðið að beina þeirri spurningu til hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar hvort hann telji ekki að það sé eiginlega þverpólitískur stuðningur við þetta í þinginu.

(Forseti (BN): Forseti vill benda hv. þingmanni á að þágufallsmyndin er Hnefli.)