149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum.

152. mál
[17:02]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Ég hef trú á því að það sé þverpólitískur stuðningur við þetta mál í þinginu og að mikilvægi þess að við verðum hluti af Geimvísindastofnun Evrópu hafi verið að síast inn hjá fleirum.

Mögulega gætum við átt í góðu samstarfi þó að við verðum ekki orðin aðili einn, tveir og þrír. Ferlið og allt sem því fylgir getur tekið tíma. Ég held að þetta sé svolítið hulið mál en mikilvægið er mikið.

Ég var með fyrirlestur um þau mál í Könnunarsögusafninu á Húsavík í haust þar sem þetta fína safn Örlygs Hnefils Örlygssonar er árlega með ráðstefnu um málin. Þarna var fjöldi erlendra fyrirlesara og við ræddum málin. Þá hélt ég fína tölu um þetta.

Ég held að við eigum að drífa í að koma umsókn í góðan farveg þannig að við náum árangri fljótt og vel.

Ég held líka að það geti haft mikil áhrif að við erum á mótum tveggja kerfa, annars vegar er EGNOS sem er evrópski hlutinn og VAS sem er í Bandaríkjunum. Norður-Atlantshafið, norður eftir og yfir Grænlandi, er ekki með þetta hjá sér. Þetta er verkefni.

Mögulega þyrftu menn að ná einhvers konar samkomulagi þar á milli um hvernig menn ná yfir Atlantshafið. En ég held að mjög víða sé áhugi á málinu alþjóðlega. Þetta er líka hluti af björgun á hafi og ýmsu slíku.