149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum.

152. mál
[17:06]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Hvað tekur þetta langan tíma? Ég held að það þurfi ekki að taka allt of langan tíma í sjálfu sér að koma með umsóknina. Auðvitað þurfum við að samþykkja hérna inni að móta stefnu. Fyrir mér á þetta að vera hluti af þeirri flugstefnu sem við erum að móta akkúrat núna þar sem starfshópar, yfirhópur og þrír undirhópar, eru að skrifa skýrslu sem snýr að flugstefnu fyrir land og þjóð. Það er eitt af þeim stóru verkefnum sem ég vísaði í áðan sem hafa verið leidd áfram af núverandi ríkisstjórn.

Ég leyfi mér að ætla að við getum verið komin með gervihnattaleiðsögn í notkun á Íslandi á fimm til átta árum. Fyrir um hálfu ári talaði ég um tíu ár. Ég hef viljað flýta því ferli. Staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum er einmitt dæmi um það hversu stór þáttur þetta er, af því að rekstur flugvallar snýst um nýtingarhlutfallið sem ég minntist á áðan. Við finnum ekkert annað til að ná upp betri og frekari nýtingu á flugvöllunum en þetta kerfi. Það veitir gríðarlegt öryggi. Hægt verður að lenda í verra skyggni, lægri skýjahæðum, sem eykur öryggi vítt og breitt um landið, á minni stöðum, á flugvöllum um allt land, fyrir Landhelgisgæsluna og þyrlurnar. Þetta er stóra samhengið.

Eftir fimm til átta ár vil ég að þetta sé tilbúið. Ég held að það nýtist mikið í leit og björgun norður í höfum og þegar kemur skemmtiferðaskipunum. Það er svo mikið í gangi. Ég held að þetta sé dæmi um eitthvað sem við getum ekki vitað hvar endar ef við komum því á. Ég held að rannsóknir, vísindi og annað myndu hafa óhemjumikið gagn af því ef því yrði náð fram.