149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum.

152. mál
[17:22]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Forseti. Mér rennur blóðið til skyldunnar sem er sérstakur áhugamaður um flug. Við höfum hlustað hér á nokkra þingmenn, sem ég vil kalla flugþingmenn, tala af gríðarlegri reynslu og þá á ég auðvitað við landsbyggðarþingmennina sem búa á Vestfjörðum, á norðanverðu landinu og norðaustanverðu landinu, nota flug gríðarlega mikið og hafa af þessu reynslu.

En hvað um það, ég held fyrir víst, ef maður hefur fylgst með þróun flugs, bæði leiðsögutækninni, því sem er að gerast í orkuskiptum varðandi flug og ýmiss konar þróun í flugmálum, við getum talað um sjálfar vélarnar, jafnvel loftskip og annað slíkt, að í framtíðinni verði miklu meira um flug en við eigum að venjast núna. Það stafar einfaldlega af því að tíminn er dýrmætur og flug verður æ öruggara og það verður sennilega ódýrara með tímanum. Mjög líklegt er að við eigum eftir að sjá allt annað ástand eftir 30, 40, 50 ár en við eigum núna að venjast.

Mig langar að koma að því sem aðeins hefur verið talað um hér sem eru breytingarnar sem samgönguáætlunin hefur í för með sér í flugmálunum. Þegar Isavia verður nú gert skylt að kosta varaflugvelli landsins gerist það með þjónustugjöldum sem munu skila verulegum tekjum. Það sem gerist þá í kjölfarið er einfaldlega að þessir þrír flugvellir sem um ræðir verða bættir og efldir á alla lund þannig að flugöryggi í utanlandsflugi verður meira en ella. En svo verða til ruðningsáhrif sem menn hafa aðeins komið inn á. Það losnar á vissan hátt um það fé sem núna er sett í t.d. þá flugvelli og þá er hægt að fara að bera það í flugvelli eins og þá sem mikið eru notaðir núna, grunnnetið innan lands, hvort sem er Húsavík, Ísafjörður, Vestmannaeyjar eða hvað. Og aðrir flugvellir fá sinn skerf líka. Það verður því töluverð uppbygging og endurbætur og umbætur á öllu flugkerfi, jafnvel þeim flugvöllum sem eingöngu eru notaðir til flugkennslu. Við megum ekki gleyma því að flugkennsla á Íslandi er verulega öflugur atvinnuþáttur.

Mig langar að koma þessu að sem skýringu og minna á að þetta er samþykkt samgönguáætlun. Hér er ekki verið að tala um útfærslu á veggjöldum eða annað slíkt. Hér er verið að tala um samgönguáætlun sem er samþykkt í þessa veru.

Inn í þetta kemur svo auðvitað hugmyndafræðin um almenningssamgöngur, flug sem almenningssamgöngur, niðurgreiðslur og annað slíkt sem mér finnst vera sjálfsögð samfélagsþjónusta, rétt eins og margt annað sem er niðurgreitt. Ég var með ræðu fyrr í dag um sorpmál sem verða í eðli sínu niðurgreidd þjónusta við samfélagið að einhverju leyti. Það er alveg það sama með samgöngur, hvort sem er á landi, í lofti eða á sjó, sem gera það að verkum að landið allt er meira eða minna byggilegt.

Ég vil svo að endingu nefna að við í umhverfis- og samgöngunefnd munum taka þessari tillögu mjög vel — ég held að hún sé fullkomlega þverpólitísk — og sjá til þess að hún fái verðuga þinglega meðferð.