149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[17:27]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum. Meðflutningsmenn eru hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorgrímur Sigmundsson og Þorsteinn Sæmundsson.

Á eftir V. kafla laganna kemur nýr kafli, V. kafli A, Fæðingarstyrkur vegna ættleiðingar, með tveimur nýjum greinum, 17. gr. a og 17. gr. b, ásamt fyrirsögnum.

Fyrri fyrirsögnin er svona: Fæðingarstyrkur til móður sem gefur barn sitt til ættleiðingar.

Móðir sem gefur barn sitt til ættleiðingar við fæðingu þess, að uppfylltum skilyrðum laga um ættleiðingar, á rétt á fæðingarstyrk í sex mánuði frá fæðingu barnsins.

Fæðingarstyrkur til móður vegna ættleiðingar skal vera 135.525 kr. á mánuði. Móðirin skal eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma.

Hafi móðir haft lögheimili hér á landi í a.m.k. einhvern tíma í síðasta mánuði fyrir fæðingardag barns skal Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til búsetutímabila móður í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar þegar metið er hvort móðir fullnægi lögheimilisskilyrði samkvæmt 2. mgr. enda hafi móðirin verið tryggð á sama tíma í því ríki og ekki hefur liðið meira en mánuður frá því að tryggingatímabili samkvæmt lögum þess ríkis var lokið. Móðir skal láta tilskilin vottorð um búsetutímabil og tryggingatímabil í öðru ríki í samræmi við ákvæði samninganna fylgja með umsókn um greiðslur samkvæmt þessu ákvæði.

Fjárhæð fæðingarstyrks kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þó er ráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta styrkfjárhæðinni til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þegar áðurgreind skilyrði leiða til hækkunar á fjárhæð fæðingarstyrks skal ráðherra breyta fjárhæðinni í reglugerð.

Síðari fyrirsögnin er svona: Umsókn til Vinnumálastofnunar.

Móðir skal, samanber 1. mgr. 17. gr. a, sækja skriflega um fæðingarstyrk vegna ættleiðingar til Vinnumálastofnunar þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns.

Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um tilhögun á afgreiðslu Vinnumálastofnunar.

Herra forseti. Tilgangur þessa frumvarps er einkum tvíþættur. Fyrst má nefna að leitast er við að opna umræðuna um ættleiðingar innan lands, að ættleiðing geti verið raunhæfur kostur þegar um óvelkomna þungun er að ræða.

Lífsskoðanir fólks eru um margt misjafnar. Sumum konum hugnast einfaldlega ekki fóstureyðing, hvort sem það er af trúarlegum ástæðum eða öðrum, en hafa ekki tök á því að ala önn fyrir barninu. Einnig getur sú staða komið upp að kona uppgötvi ekki þungun fyrr en það er of seint á meðgöngunni og þá er fóstureyðing ekki valkostur.

Í öðru lagi er tilgangur frumvarpsins sá að styðja þær konur sem taka ákvörðun um að gefa barn sitt til ættleiðingar við fæðingu fjárhagslega, en þær hafa hingað til ekki notið aðstoðar af hálfu hins opinbera. Hér á landi er hlúð vel að ættleiddum börnum og kjörforeldrum þeirra. Kjörforeldrar fá til að mynda fæðingarorlof til að kynnast og sinna barni sínu, samanber 7. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000.

Við hlúum líka vel að pörum eftir fósturlát og andvanafæðingar. Samkvæmt 12. gr. áðurnefndra laga á par sem missir fóstur eftir 18 vikna meðgöngu rétt á fæðingarorlofi.

Lítið hefur hins vegar farið fyrir umræðunni um líðan og þarfir kvenna sem gefa barn til ættleiðingar hér á landi. Þær hafa hvorki rétt á orlofi né fjárhagslegum stuðningi af neinum toga. Tel ég fulla þörf á því að mæta hinum ýmsu útgjöldum er varða líkamlega og andlega heilsu hinnar barnshafandi konu. Þar má telja kostnað við sálfræðiþjónustu, líkamsrækt og sjúkraþjálfun, svo fátt eitt sé nefnt. Í þessu sambandi er rétt að nefna að í Danmörku eiga kynforeldrar sem láta ættleiða barn sitt rétt til orlofs og greiðslna í fæðingarorlofi í 14 vikur frá ættleiðingu barnsins. Í Bandaríkjunum fær móðir sem gefur barn sitt til ættleiðingar margvíslega aðstoð. Hún er misjöfn eftir ríkjum og getur falist í beinum fjárhagslegum stuðningi, að allur lækniskostnaður er greiddur, bæði meðan á meðgöngu stendur og í tiltekinn tíma eftir fæðingu, allur lögfræðikostnaður er greiddur vegna ættleiðingar, öll ráðgjafarþjónusta eins og þjónusta sálfræðings er konunni að kostnaðarlausu og í boði allan sólarhringinn, auk þess sem ýmsir styrkir vegna uppihalds eru í boði, svo sem vegna húsaleigu, ferðakostnaður og fatakaupa.

Af ofangreindu er því ljóst að í Bandaríkjunum er almennt vel hugsað um konur sem gefa barn sitt við fæðingu til ættleiðingar og megum við taka þessar þjóðir okkur til eftirbreytni hvað þetta varðar.

Samkvæmt upplýsingum frá Íslenskri ættleiðingu bíða nú um 50 pör eftir því að fá að ættleiða barn og fer þeim fjölgandi ár frá ári. Ættleiðingar erlendis frá fela í sér langt, kostnaðarsamt og erfitt ferli. Á síðasta ári voru einungis sex börn ættleidd erlendis frá og hefur alþjóðlegum ættleiðingum fækkað. Undanfarin ár hefur að meðaltali eitt íslenskt barn verið ættleitt hér á landi.

Ættleiðingu hefur verið lýst með eftirfarandi orðum, með leyfi forseta:

„Þegar ég hélt á þessu barni í örmum mér og það var mitt barn sem mér bar að gæta og styðja þá skildist mér að ég hafði nú öðlast nýjan tilgang með veru minni á jörðinni og tengdist á nýjan hátt mannkyninu. Hitt varðaði þá ekki síður miklu að mér þótti sem ég tengdist mannkyninu djúpt inni í sjálfum mér.“

Þetta ritaði Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og í dag hv. þingmaður, í afmælisrit Íslenskrar ættleiðingar árið 1999. Yfirskrift textans var Góð verk og góðverk. Þessi fallegi texti rithöfundarins fangar vel þær sterku tilfinningar sem búa að baki þeirri stórkostlegu gjöf að fá barn í hendur og verða foreldri þess.

Herra forseti. Í dag er ættleiðing barns í eðli sínu verndarúrræði fyrir barnið. Ættleiðing er leið til að tryggja barni sem ekki á fjölskyldu sem getur annast það möguleika á að fá að alast upp hjá fjölskyldu sem hefur aðstæður til að veita því góðan aðbúnað og uppeldi í samræmi við þarfir barnsins.

Í skýrslu sem Hrefna Friðriksdóttir vann fyrir innanríkisráðuneytið fyrir nokkrum árum um ættleiðingar á Íslandi er bent á að Ísland skeri sig úr að því er varðar takmarkaða uppbyggingu ættleiðingarkerfisins, fyrst og fremst ef litið er til fjölda, menntunar og sérhæfingar fagaðila sem hafi hlutverkum að gegna í ættleiðingarmálum og umfangs þess starfs sem unnið er. Í skýrslunni kemur einnig fram að mikilvægt sé að vera vakandi fyrir því álagi sem ættleiðing hefur yfirleitt í för með sér fyrir kjörforeldra.

Vitnað er í rannsókn sem gerð var á Norðurlöndum þar sem kemur fram að þunglyndi eftir ættleiðingu virðist t.d. eiga sér stað í svipuðum mæli og þunglyndi eftir fæðingu. Þá hefur verið bent á að viðbótarálag sem fylgt getur ættleiðingu, svo sem vegna glímu við ófrjósemi, hugsanlega óuppgerða sorg, miklar væntingar og óvissu og vegna mats á foreldrahæfni og annarra skrefa í ættleiðingarferlinu.

Árið 2006 birtust niðurstöður rannsóknar á heilsu og líðan ættleiddra barna á Íslandi. Rannsóknin var gerð á vegum barna- og unglingageðdeildar Landspítalans í samvinnu við nema í sálfræðideild Háskóla Íslands og Íslenska ættleiðingu. Markmiðið var að auka skilning á almennri líðan ættleiddra barna og aðstæðum þeirra og upplýsa hvort ættleidd börn og kjörforeldrar fengju viðeigandi þjónustu.

Herra forseti. Það er því ljóst, samkvæmt því sem ég hef nefnt hér, að við stefnumótun og framkvæmd ættleiðinga hefur verið lögð höfuðáhersla á að kynna sjónarmiðið um hagsmuni barnsins og kjörforeldranna. Eins og áður segir hefur því lítið farið fyrir umræðunni um líðan og þarfir kvenna sem gefa barn til ættleiðingar hér á landi. Mikilvægt er að bæta úr því og þetta frumvarp er liður í því. Að því sögðu vísa ég málinu til hv. velferðarnefndar.