149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[17:42]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég skil það vel og get alveg ímyndað mér að hv. þingmaður meini vel þegar hann leggur þetta fram. Það er raunverulegur vilji til að aðstoða konur sem taka þá erfiðu ákvörðun að gefa frá sér barn. Mér finnst þetta samt varhugavert. Hefur hv. þingmaður t.d. velt fyrir sér þeim hvata sem er verið að skapa, hvort þarna sé verið að skapa þrýsting eða að kannski sjái konur sem eru í neyð á einhvern hátt og eru í mjög erfiðum félagslegum aðstæðum, eru í viðkvæmri stöðu, fyrir sér mögulega þarna að þær fái greitt fyrir það að eignast barn og gefa það frá sér? Er þetta ekki dálítið varhugaverð nálgun?

Ég er í raun og veru að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi velt þessu fyrir sér.