149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[17:44]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Samkvæmt 14. gr. ættleiðingarlaga er fjárhagslegur ávinningur, ef það má orða það þannig, og hv. þingmaður var eflaust að ýja að því, óheimill. Það er auk þess óheimilt samkvæmt Haag-samningnum sem við erum aðilar að. Auk þess er upphæð styrksins ekki þess eðlis að hún ýti undir slíkt. Ég held að það sjái flestallir. Að mínu mati er bara fjarstæðukennt að konur hér á landi muni gera þetta að féþúfu. Ég ætla ekki íslenskum konum að fara út í slíkar aðgerðir.

Hv. þingmaður nefndi áðan muninn á staðgöngumæðrun og hugmyndinni í þessu frumvarpi. Hann er mikill og við þekkjum að sú hætta er fyrir hendi varðandi staðgöngumæður (Forseti hringir.) að það verði í fjárhagslegu skyni en þetta frumvarp er allt annars eðlis, það er einfaldlega verið að styrkja konur í erfiðum aðstæðum til að leita sér ýmissar aðstoðar.