149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[17:55]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að játa að mér þykir hér vera farin sérkennileg leið til að styðja konur í sjálfsákvörðunarrétti um sína eigin heilsu. Ég skil einhvern veginn ekki hvernig menn detta niður á þessa leið því að ég sé þetta ekki sem neitt annað en vissa hættu á því að verið sé að búa til aðstæður þar sem verður hægt að kaupa konur til að ganga með börn, konur þá oftast í erfiðum aðstæðum og sem við ættum miklu fremur að styðja með einhverjum öðrum leiðum í félagslegum skilningi.

Mig langar aðeins að biðja þingmanninn að velta því upp með mér hvort hann hafi hugsað út í þá siðferðilegu „dilemmu“ sem þarna skapast með þessari aðferð.