149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[17:59]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og fagna því að hv. þingmaður nefnir hér að það sé mikilvægt að þetta verði skoðað mjög vel innan nefndarinnar. Ég hvet þá nefndina til þess hér og nú að skoða reynslu Dana af þessu fyrirkomulagi. Það sem lagt er til í frumvarpinu er ekkert nýmæli, þetta er framkvæmt í Danmörku og það hefur gefið góða raun að styðja með slíkum fjárhagslega stuðningi við bakið á konum sem gefa barn sitt til ættleiðingar. Ég hvet nefndina eindregið til að skoða hver reynslan af þessu er í Danmörku. Af því að hv. þingmaður tengir málið staðgöngumæðrunarumræðunni vil ég að auki árétta það sem ég sagði áðan, að upphæðin sem hér er um að ræða er að mínu mati engan veginn þess eðlis að hún ýti undir einhvern fjárhagslegan ávinning. Ég held að (Forseti hringir.) allir þeir hv. þingmenn sem hafa tekið þátt í þessari umræðu, sem ég þakka fyrir, sem hefur verið málefnaleg og góð, hljóti að vera sammála mér um það.